Einn er í haldi lögreglunnar í Uppsölum í Svíþjóð í tengslum við skotárás við hárgreiðslustofu í borginni í gær þar sem þrír létu lífið. Fólkið sem lést var á aldrinum 15 til 20 ára.
Að sögn Expressen voru nokkrir handteknir í nótt. Tveimur var sleppt en snemma í morgun var einn enn í haldi. Hann er sagður vera undir 18 ára aldri.
Ekki er vitað hvort um einn eða fleiri gerendur var að ræða en grímuklæddur maður á rafvespu sást fara af vettvangi. Strax eftir árásina sendi lögreglan þyrlur af stað, umferð lesta var stöðvuð og margir bílar voru stöðvaðir þar sem reynt var að hafa uppi á árásarmanninum.
Í dag halda Svíar upp á Valborgarmessu, sem er haldin aðfaranótt 1. maí til heiðurs heilagri Valborgu. Lögreglan segist hafa aukið öryggisgæslu vegna hátíðahaldanna.
„Það er engin hætta fyrir almenning að vera utandyra,“ segir Maria Hall, talsmaður lögreglunnar, við Uppsala Nya Tidning.
Gunnar Strömmer, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, sagði í morgun að ríkisstjórnin líti skotárásina mjög alvarlegum augum.
„Á sama tíma og margir voru að hefja Valborgarhátíðina voru þrír skotnir til bana. Þetta er grimmt og miskunnarlaust ofbeldisverk. Þetta er ekki eitthvað sem samfélagið getur ekki sætt sig við,“ segir hann.
Lögreglan í Uppsölum boðaði til fréttamannafundar í morgun sem nú stendur yfir.