Mannúðaraðstoð á Gasasvæðinu er á barmi þess að þurrkast út en ísraelsk stjórnvöld hafa stöðvað allar hjálparsendingar þangað síðustu tvo mánuði. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Rauði krossinn sendi frá sér fyrr í dag.
„Ef hjálpastarf verður ekki endurvakið tafarlaust mun Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) ekki hafa aðgang að matvælum, lyfjum og lífsnauðsynlegum birgðum sem þarf til að halda uppi mörgum af verkefnum Rauða krossins á Gasa,“ sagði í yfirlýsingu.
Ísraelsk stjórnvöld stýra öllu flæði af hjálpargögnum inn á Gasasvæðið en þær 2,4 milljónir Palestínumanna sem þar eru reiða sig á mannúðaraðstoð.
Allar sendingar hjálpargagna hafa verið stöðvaðar frá 2. mars en síðan hafa Sameinuðu þjóðirnar ítrekað varað við yfirvofandi hörmungum og hungursneið á Gasa.
Í tilkynningu Rauða krossins var haft eftir Pascal Hundt, yfirmanni hjá ISRC, að ástandið mætti ekki og gæti ekki haldið áfram óbreytt.
Þá var lögð áhersla á að ísraelskum stjórnvöldum bæri skylda til að beita öllum tiltækum ráðum til að tryggja það að grundvallarþörfum almennra borgara væri mætt.
„Ef stöðvun hjálpargagna heldur áfram munu verkefni eins og sameiginleg eldhús Alþjóðaráðs Rauða krossins, sem útvega oft einu máltíðina sem fólk fær á hverjum degi, aðeins geta starfað í nokkrar vikur í viðbót,“ segir í yfirlýsingunni.