Sænska lögreglan hefur handtekið þrjá í tengslum við skotárás við hárgreiðslustofu í Uppsölum þar sem þrír létu lífið á þriðjudag. 16 ára drengur sem var handtekinn vegna árásarinnar verður látinn laus úr haldi.
SVT greinir frá því að drengnum verði sleppt síðar í dag og að rannsókn hafi leitt í ljós að hann hafi ekki verið að verki.
Drengurinn strauk af svokölluðu HVB-heimili, sem eru heimili fyrir vandalaus börn, nokkrum dögum fyrir árásina.
Lögmaður drengsins sagði í samtali við miðilinn að um mikinn létti sé að ræða.
„Skjólstæðingur minn gat svarað spurningum lögreglunnar og sannað sakleysi sitt,“ sagði Anders Sannervik lögmaður.
Tveir menn, 25 ára og 35 ára, voru handteknir í gær. Einn til viðbótar á tvítugsaldri var síðan handtekinn í nótt.