Nú þegar búið er að telja flest atkvæði í sveitarstjórnarkosningunum í Bretlandi er ljóst að Umbótaflokkurinn hefur unnið stórsigur. Á sama tíma biðu Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn afhroð.
Í gær voru haldnar kosningar þar sem kosið var í 23 sveitarstjórnir, sex borgarstjórastóla og eitt þingsæti. Alls var kosið um 1.641 sveitarstjórnarsæti en ljóst er hverjir náðu kjöri í öllum sætum nema 12.
Umbótaflokkurinn, sem Nigel Farage leiðir á landsvísu, er með 677 fulltrúa kjörna og náði hreinum meirihluta í 10 sveitarfélögum. Frjálslyndir demókratar eru með 370 fulltrúa kjörna, Íhaldsflokkurinn 317, Verkamannaflokkurinn 99, Óháðir 89 og Græningjar 80.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Auk þess að fá langflesta sveitarstjórnarfulltrúa þá náði frambjóðandi Umbótaflokksins að hirða þingsæti af Verkamannaflokknum í aukakosningum sem haldnar voru samhliða í kjördæminu Runcorn og Helsby.
Kosið var sérstaklega til borgarstjóra í sex borgum og þar náði Verkamannaflokkurinn að halda þremur stólum en tapaði aftur á móti borgarstjórastólnum í Cambridgeskíri & Peterborough til Íhaldsflokksins. Umbótaflokkurinn vann tvær borgarstjórakosningar.
Íhaldsflokkurinn hefur tapað 676 sætum á sveitarstjórnarstiginu og Verkamannaflokkurinn 186 sætum. Frjálslyndir demókratar koma vel út úr kosningunum en þeir bættu við sig 163 sveitarstjórnarfulltrúum.
Um er að ræða fyrstu kosningarnar sem haldnar eru síðan kosið var til þings fyrir tæplega ári síðan, þar sem Verkamannaflokkurinn vann.
Ljóst er niðurstöður kosninganna í gær eru mikil vonbrigði fyrir Verkamannaflokkinn en einnig Íhaldsflokkinn, sem greinilega er ekki búinn að ná sér á strik eftir afhroðið í síðustu þingkosningum.
Kemi Badenoch, leiðtogi Íhaldsflokksins, sagði í dag að þó almenningur væri „kominn með nóg af“ Verkamannaflokknum, væri hann heldur ekki enn tilbúinn að treysta Íhaldsflokknum.
Í Bretlandi er ekki kosið til allra sveitarstjórna í einu og var aðeins verið að kjósa um 1.641 sveitarstjórnarfulltrúa af 17 þúsund í heild sinni.