Umbótaflokkurinn ótvíræður sigurvegari kosninganna

Nigel Farage, leiðtogi Reform, sagði í dag að flokkurinn ætlaði …
Nigel Farage, leiðtogi Reform, sagði í dag að flokkurinn ætlaði sér að vinna næstu þingkosningar, sem fara fram í síðasta lagi 2029. AFP/Oli Scarff

Nú þegar búið er að telja flest at­kvæði í sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­un­um í Bretlandi er ljóst að Um­bóta­flokk­ur­inn hef­ur unnið stór­sig­ur. Á sama tíma biðu Íhalds­flokk­ur­inn og Verka­manna­flokk­ur­inn af­hroð.

Í gær voru haldn­ar kosn­ing­ar þar sem kosið var í 23 sveit­ar­stjórn­ir, sex borg­ar­stjóra­stóla og eitt þing­sæti. Alls var kosið um 1.641 sveit­ar­stjórn­ar­sæti en ljóst er hverj­ir náðu kjöri í öll­um sæt­um nema 12.

Um­bóta­flokk­ur­inn, sem Nig­el Fara­ge leiðir á landsvísu, er með 677 full­trúa kjörna og náði hrein­um meiri­hluta í 10 sveit­ar­fé­lög­um. Frjáls­lynd­ir demó­krat­ar eru með 370 full­trúa kjörna, Íhalds­flokk­ur­inn 317, Verka­manna­flokk­ur­inn 99, Óháðir 89 og Græn­ingj­ar 80.

Breska rík­is­út­varpið grein­ir frá. 

Hirti þing­sæti af Verka­manna­flokkn­um

Auk þess að fá lang­flesta sveit­ar­stjórn­ar­full­trúa þá náði fram­bjóðandi Um­bóta­flokks­ins að hirða þing­sæti af Verka­manna­flokkn­um í auka­kosn­ing­um sem haldn­ar voru sam­hliða í kjör­dæm­inu Runcorn og Hels­by.

Kosið var sér­stak­lega til borg­ar­stjóra í sex borg­um og þar náði Verka­manna­flokk­ur­inn að halda þrem­ur stól­um en tapaði aft­ur á móti borg­ar­stjóra­stóln­um í Cambridge­skíri & Peter­borough til Íhalds­flokks­ins. Um­bóta­flokk­ur­inn vann tvær borg­ar­stjóra­kosn­ing­ar.

Íhalds­flokk­ur­inn hef­ur tapað 676 sæt­um á sveit­ar­stjórn­arstig­inu og Verka­manna­flokk­ur­inn 186 sæt­um. Frjáls­lynd­ir demó­krat­ar koma vel út úr kosn­ing­un­um en þeir bættu við sig 163 sveit­ar­stjórn­ar­full­trú­um. 

Al­menn­ing­ur kom­inn með nóg af valda­flokk­un­um

Um er að ræða fyrstu kosn­ing­arn­ar sem haldn­ar eru síðan kosið var til þings fyr­ir tæp­lega ári síðan, þar sem Verka­manna­flokk­ur­inn vann.

Ljóst er niður­stöður kosn­ing­anna í gær eru mik­il von­brigði fyr­ir Verka­manna­flokk­inn en einnig Íhalds­flokk­inn, sem greini­lega er ekki bú­inn að ná sér á strik eft­ir af­hroðið í síðustu þing­kosn­ing­um. 

Kemi Badenoch, leiðtogi Íhalds­flokks­ins, sagði í dag að þó al­menn­ing­ur væri „kom­inn með nóg af“ Verka­manna­flokkn­um, væri hann held­ur ekki enn til­bú­inn að treysta Íhalds­flokkn­um.

Í Bretlandi er ekki kosið til allra sveit­ar­stjórna í einu og var aðeins verið að kjósa um 1.641 sveit­ar­stjórn­ar­full­trúa af 17 þúsund í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert