Óvenjulegt veðurafbrigði hrellti Parísarbúa í dag þegar haglél tók skyndilega að falla úr lofti þrátt fyrir að hitastig væri nálægt 25 gráðum. Hvarvetna á netinu má sjá furðulostna íbúa frönsku höfuðborgarinnar furða sig á því sem fyrir augu ber.
Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að þó að fyrirbrigðið sé sjaldgæft þá gerist þetta af og til.
„Það er talsvert skúra- og eldingaveður að fara yfir Frakkland, Belgíu, Holland og inn í Þýskaland. Þegar um er að ræða svona öfluga skúra- og éljabakka þá er gjarnan ís í toppnum á skýjunum. Haglið hringsólar í toppi skýjanna þangað til það verður einfaldlega of þungt. Þá bráðnar það oftast og fellur til jarðar sem regn en alls ekki alltaf. Það er skýringin á því að menn geta séð haglél í 25 stiga hita,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.