Grísk kona á fertugsaldri lést í morgun eftir að sprengja sem hún hélt á sprakk í höndum hennar fyrir utan banka í borginni Þessalóníku. Talið er að konan hafi ætlað að koma sprengjunni fyrir við hraðbanka.
Samkvæmt grískum fjölmiðlum var konan 38 ára og hafði áður hlotið dóm fyrir bankarán. Hún var í fyrstu flutt á sjúkrahús með alvarlega áverka á höndum en lést af áverkum sínum skömmu síðar.
Talsverðar skemmdir voru á byggingum og rúður brotnuðu þar sem sprengjan sprakk.
Talskona lögreglunnar sagði við grísku sjónvarpsstöðina Skai að rannsókn væri hafin og að til skoðunar væri hvort konan hefði tengsl við þekktan öfgasinnaðan vinstrimann sem nú afplánar dóm fyrir vopnuð rán og árásir.