Verkamannaflokkur Anthony Albanese fær 85 af 150 sætum í ástralska þinginu, samkvæmt útgönguspám ABC, ríkisútvarpsins þar í landi.
Næststærstur er Íhaldsflokkurinn undir stjórn Peters Duttons sem er spáð 41 sæti á þinginu. Aðrir flokkar fá níu sæti. Óvissa ríkir um önnur 15 sæti, en ABC telur líklegt að sjö þeirra fari til Verkamannaflokksins.
„Í dag kaus ástralska þjóðin áströlsk gildi: Sanngirni, metnað og tækifæri fyrir alla,“ sagði Albanese í sigurræðu sinni.
„Á þessum tímum alþjóðlegrar óvissu hafa Ástralir valið bjartsýni og ákveðni.“
Íhaldsflokkurinn, undir forystu Peter Dutton, hafði leitt skoðanakannanir í þrjá mánuði og var því um mikinn viðsnúning að ræða. Dutton hefur nú misst þingsæti sitt.