Breska lögreglan greindi frá því í dag að fimm karlmenn, þar á meðal fjórir Íranar, hefðu verið handteknir grunaðir um undirbúning hryðjuverka.
Mennirnir voru handteknir í Lundúnum, Swindon og Manchester í gær.
Þeir eru á aldrinum 29 til 46 ára og eru grunaðir um undirbúning hryðjuverka á ákveðnum stað. Lögreglan hefur ekki greint frá hvar sá staður var en mennirnir eru enn í haldi.
Enn á eftir að staðfesta þjóðerni eins mannanna.
„Hlutirnir eru að gerast hratt í rannsókn málsins og við vinnum náið með þeim sem voru á staðnum þar sem árásin átti að eiga sér stað til þess að halda þeim upplýstum,“ sagði Dominic Murphy, yfirmaður hryðjuverkavarna hjá lögreglunni í Lundúnum.
Hann sagði rannsóknina vera á frumstigum. Verið væri að rannsaka mögulegar ástæður árásarinnar og hvort yfirvofandi hætta sé enn til staðar.
Þrír Íranar til viðbótar voru handteknir í annarri aðgerð í Lundúnum. Þeir eru 39 ára, 44 ára og 55 ára.
Þeir voru handteknir á grundvelli þjóðaröryggislaga sem veita lögreglu heimild til að koma í veg fyrir ríkisógnir, þar á meðal afskipti erlendra ríkja og njósnir.
Yvette Cooper innanríkisráðherra þakkaði lögreglu í yfirlýsingu.
„Þetta eru alvarlegir atburðir sem sýna fram á að við þurfum sífellt að aðlaga viðbrögð okkar við þjóðaröryggisógnum.“