Tæplega fimmtugur karlmaður í Suður-Stokkhólmi í Svíþjóð sætir nú ákæru fyrir að hafa í þrettán tilfellum brotið kynferðislega gegn barni undir fimmtán ára aldri sem tengist honum fjölskylduböndum auk þess sem maðurinn er ákærður fyrir stórfellda dreifingu á myndefni er sýnir barn í kynferðisathöfnum.
Áttu flest brotanna sér stað í sænsku höfuðborginni árabilið 2015 til 2022, en ákærði var handtekinn í kjölfar húsleitar lögreglu á heimili hans í Mönsterås í ágúst síðastliðnum og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan.
Eru ákæruatriðin gegn manninum 50 talsins og lýsa þau brotum hans gegn barninu sem ákæruvaldið segir hafa verið „kerfisbundin“, en efnið sem hann dreifði, og sýndi brot hans, fannst á huliðsvefnum Darknet og tókst lögreglu að rekja það til hans við rannsókn málsins að sögn Lindu Carneus saksóknara.
Kveður Carneus aðgerðadeild lögreglu vegna landsins alls, Nationella operativa avdeling, hafa unnið greiningarvinnu sem leiddi til þess að saksóknaranum þótti rökstuddur grunur um brot ákærða liggja fyrir og krafðist í framhaldinu húsleitar.
Við leitina fann lögregla meðal annars rúmlega 400 klukkustundir af myndskeiðum er sýndu brot mannsins svo ekki varð um villst, en einnig brot annarra aðila gegn öðrum börnum. Segir saksóknari ákærða hafa nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart mjög ungu barni um árabil.