Rúmenar gengu til forsetakosninga í dag en hinn hægrisinnaði George Simion, formaður AUR-flokksins, fær flest atkvæði samkvæmt útgönguspám.
Óánægja almennings með fjárhagslegan stuðning Rúmeníu við úkraínska flóttamenn hefur verið miðpunktur í kosningabaráttu Simions, þótt hann neiti að vera Rússlandssinnaður.
Simion fær um 30-33% atkvæða en næst á eftir eru miðjumennirnir Nicusor Dan, borgarstjóri Búkarest, og Crin Antonescu, sem er fulltrúi ríkisstjórnar Sósíaldemókrata og Kristilegra demókrata, með um 21-23% atkvæða.
Þar sem ólíklegt verður að teljast að neinn frambjóðandi fái hreinan meirihluta atkvæða má búast við annarri umferð kosninganna þann 18. maí.
Forsetakosningar voru haldnar í landinu 24. nóvember þegar Calin Georgescu fékk flest atkvæði en niðurstöðurnar voru dæmdar ógildar vegna ásakana um kosningasvik og afskipti Rússa af kosningunum.
Var Georgescu bannað að taka þátt aftur í kosningunum og var hann jafnframt ákærður fyrir að greina ekki rétt frá fjármögnun á kosningaherferð sinni.