Talið er að minnsta kosti sjö manns hafi látið lífið í flugskeytaárás Indlands á Pakistan í kvöld, þar af tvö börn.
Þetta segir Ahmed Sharif, talsmaður pakistanska hersins, í samtali við breska ríkisútvarpið en hann segir að flugskeytin hafi komið víða niður, meðal annars á mosku.
Sharif segir að pakistanski herinn hafi skotið niður tvær orrustuþotur indverska hersins og dróna. Hann segir að Pakistanar hafi rétt á því að verja sig og að það séu þeir að gera.
Indland hóf flugskeytaárásir á Pakistan í kvöld í kjölfar banvænnar hryðjuverkaárásar á ferðamenn á yfirráðasvæði Indlands í Kasmír-héraði í síðasta mánuði. Samband ríkjanna hefur versnað töluvert í kjölfarið og óttast hefur verið að til hernaðarátaka gæti komið.