Maður á þrítugsaldri situr í haldi lögreglu í Moss í norska fylkinu Østfold suður af Ósló, grunaður um að hafa átt aðild að því þegar fjölda skota var í nótt skotið að íbúð í fjölbýli á Jeløya sem þar er.
Að sögn Anders Bækkemoen ákæruvaldsfulltrúa lögreglu brotnaði gluggi í íbúðinni í árásinni, en ekki hlaut nokkur manneskja líkamstjón af. Kveður Bækkemoen manninn grunaða hafa verið handtekinn skömmu eftir atburðinn og hann þá verið staddur skammt frá vettvangi. Hafi handtakan farið fram með ró og spekt.
Lögregla vill ekki tjá sig við norska ríkisútvarpið NRK um fjölda skota er skotið var að íbúðinni, en lætur þess getið að eftir yfirheyrslu sé enn allt á huldu um hverjar ástæður grunaði hafði fyrir verki sínu.