Um þrjátíu nemendur voru handteknir í mótmælum til stuðnings Palestínu í Háskóla Washington í Bandaríkjunum í gærkvöldi.
Nemendurnir kölluðu eftir því að háskólinn myndi slíta öll tengsl við Boeing í ljósi samninga flugfélagsins um flutning vopna til Ísraels.
Nemendurnir mótmæltu í húsakynnum verkfræðideildarinnar en hún hafði nýlega þegið 10 milljóna dala styrk frá Boeing.
„Fjöldi nemenda tók tímabundið yfir verkfræðibygginguna og sköpuðu hættulegt umhverfi inni í og í kringum bygginguna,“ sagði í yfirlýsingu háskólans í gærkvöldi.
„Einstaklingarnir sem huldu að mestu andlit sín hindruðu aðgang um tvær götur fyrir utan bygginguna, lokuðu fyrir inn- og útgönguleiðir og kveiktu í tveimur ruslagámum á götunni fyrir utan.“
Um klukkan ellefu um kvöldið hafði lögreglan komið öllum mótmælendum út úr byggingunni. Um 30 voru handteknir í aðgerðunum.
Talsmaður mótmælendanna sagði alla þá sem höfðu farið inn í bygginguna hafa verið handtekna. Þá sagði hann að Boeing hefði, í skiptum fyrir styrkinn, fengið aðgang að skólalóðinni, rannsóknaraðstöðu skólans og vinnu nemenda.