„Alvarlegasta sem við höfum nokkru sinni séð“

Merz og Macron hittust í París í dag.
Merz og Macron hittust í París í dag. AFP/Ludovic Marin

Emm­anu­el Macron, for­seti Frakk­lands, seg­ir ástandið á Gasa „það al­var­leg­asta sem við höf­um nokkru sinni séð.“ Þá séu áform Ísra­ela um brott­flutn­ing yfir tveggja millj­óna Palestínu­manna frá Gasa-svæðinu al­gjör­lega óá­sætt­an­leg.

Þetta kom fram á sam­eig­in­leg­um blaðamanna­fundi Macron og Friedrich Merz, nýs kansl­ara Þýska­lands, í Par­ís fyrr í dag.

„Aldrei nokk­urn tíma hef­ur fólki verið neitað um lækn­isaðstoð, aldrei hef­ur ekki verið hægt að koma særðum til bjarg­ar, fólki verið neitað um mat, lyf og vatn í svo lang­an tíma,“ sagði Macron á fund­in­um.

Mannúðaraðstoð að þurrk­ast út

Fram kom í yf­ir­lýs­ingu sem Rauði kross­inn sendi frá sér í síðustu viku að mannúðaraðstoð á Gasa væri á barmi þess að þurrk­ast út en ísra­elsk stjórn­völd hafa stöðvað all­ar hjálp­ar­send­ing­ar þangað síðustu tvo mánuði.

„Ef hjálp­ar­starf verður ekki end­ur­vakið taf­ar­laust mun Alþjóðaráð Rauða kross­ins (ICRC) ekki hafa aðgang að mat­væl­um, lyfj­um og lífs­nauðsyn­leg­um birgðum sem þarf til að halda uppi mörg­um af verk­efn­um Rauða kross­ins á Gasa,“ sagði í yf­ir­lýs­ing­unni.

Örygg­is­ráð Ísra­els samþykkti þó í vik­unni, sam­hliða þeirri áætl­un að inn­lima Gasa, að heim­ila aft­ur dreif­ingu hjálp­ar­gagna með því skil­yrði að það yrði gert í gegn­um einka­fyr­ir­tæki.

Ut­an­rík­is­ráðherr­ar Íslands, Írlands, Lúx­em­borg­ar, Nor­egs, Slóven­íu og Spán­ar sendu frá sér sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu í morg­un þar sem öll­um hug­mynd­um Ísra­els­manna um brott­flutn­ing Palestínu­manna er hafnað, enda séu þær brot á alþjóðalög­um. 

Þá var kallað frá kallað er eft­ir því ísra­elsk stjórn­völd hyrfu frá áform­um um að víkka út hernaðaraðgerðir sín­ar á Gasa og hafa þar var­an­lega viðveru.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert