Emmanuel Macron, forseti Frakklands, segir ástandið á Gasa „það alvarlegasta sem við höfum nokkru sinni séð.“ Þá séu áform Ísraela um brottflutning yfir tveggja milljóna Palestínumanna frá Gasa-svæðinu algjörlega óásættanleg.
Þetta kom fram á sameiginlegum blaðamannafundi Macron og Friedrich Merz, nýs kanslara Þýskalands, í París fyrr í dag.
„Aldrei nokkurn tíma hefur fólki verið neitað um læknisaðstoð, aldrei hefur ekki verið hægt að koma særðum til bjargar, fólki verið neitað um mat, lyf og vatn í svo langan tíma,“ sagði Macron á fundinum.
Fram kom í yfirlýsingu sem Rauði krossinn sendi frá sér í síðustu viku að mannúðaraðstoð á Gasa væri á barmi þess að þurrkast út en ísraelsk stjórnvöld hafa stöðvað allar hjálparsendingar þangað síðustu tvo mánuði.
„Ef hjálparstarf verður ekki endurvakið tafarlaust mun Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) ekki hafa aðgang að matvælum, lyfjum og lífsnauðsynlegum birgðum sem þarf til að halda uppi mörgum af verkefnum Rauða krossins á Gasa,“ sagði í yfirlýsingunni.
Öryggisráð Ísraels samþykkti þó í vikunni, samhliða þeirri áætlun að innlima Gasa, að heimila aftur dreifingu hjálpargagna með því skilyrði að það yrði gert í gegnum einkafyrirtæki.
Utanríkisráðherrar Íslands, Írlands, Lúxemborgar, Noregs, Slóveníu og Spánar sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í morgun þar sem öllum hugmyndum Ísraelsmanna um brottflutning Palestínumanna er hafnað, enda séu þær brot á alþjóðalögum.
Þá var kallað frá kallað er eftir því ísraelsk stjórnvöld hyrfu frá áformum um að víkka út hernaðaraðgerðir sínar á Gasa og hafa þar varanlega viðveru.