Leikmenn og starfsfólk kvennaliðs Wolves í ensku C-deildinni íhugar nú margt að yfirgefa félagið vegna metnaðarleysis stjórnenda gagnvart kvennastarfinu.
Mikill kostnaður fylgir því að breyta liðinu í atvinnumannalið, og er það heldur ekki markmið eigendanna sem segja bestu leikmennina einfaldlega verða að leita annað vilji þeir komast í atvinnumennsku.
Viðhorfið heillar ekki leikmennina sem segja vandamálið hafa kristallast í síðustu viku, á síðasta degi tímabilsins. Þann sama dag átti eftir að koma í ljós hver færi með sigur af hólmi í deildinni og kæmist upp í B-deildina.
Wolves og Liverpool Feds mættust í lokaleiknum þar sem Úlfynjurnar skoruðu sex mörk gegn engu. Glæsileg frammistaða Úlfynjanna dugði þó ekki til en aðeins munaði þremur stigum á þeim og Nottingham Forest sem tryggði sér titilinn með 58 stigum.
Niðurstaðan voru gífurleg vonbrigði fyrir leikmenn Wolves sem höfðu unnið fjóra síðustu leikina sína og héldu því enn í vonina um að tryggja sér sæti í ensku B-deildinni þegar gengið var út á völlinn þarsíðasta sunnudag.
Það eina sem virtist hafa staðið á milli þeirra og farseðilsins í B-deildina var andstæðingurinn Nottingham Forest sem hefði bara þurft að misstíga sig á lokasprettinum svo Úlfynjurnar gætu tekið forystuna.
Vonbrigði leikmannanna áttu þó eftir að stigmagnast og breytast í reiði meðal sumra þegar í ljós kom að Úlfynjurnar áttu aldrei möguleika á að komast upp um deild - gilti þá einu hvort Nottingham forest hefði tapað síðustu fimm leikjum sínum eður ei.
Knattspyrnufélagið Wolves hafði aldrei sótt um sæti fyrir kvennalið sitt í B-deildinni, líkt og krafa er gerð um vilji félög eiga möguleika á að fara upp um deild.
„Ímyndið ykkur að um sæti í næstu deild allt tímabilið var að ræða aðeins til að komast að því að umsókn í B-deildina var aldrei skilað inn. Sem lið erum við algjörlega miður okkar að klára tímabilið með þessum hætti og við trúum því að þetta sé einstaklega lýsandi fyrir metnað félagsins fyrir kvennastarfinu,“ sagði í yfirlýsingu miðjumanns Wolves Beth Merrick á samfélagsmiðlum, sem vakti athygli fjölmiðla á málinu.
Hún sagði leikmennina, starfsfólkið og aðdáendur félagsins eiga meira skilið. „Starfsfólkið hefur lagt fjölda klukkustunda af vinnu og metnaði í þetta aðeins til þess að félagið sleppi því að leggja inn umsókn,“ sagði Merrick.
„Þetta snýst ekki um peningana, þetta snýst um hreinskilni og gagnsæi,“ hélt hún áfram.
Varnarmaðurinn Lily Simkin tók undir orð liðsfélaga síns og sagði leikmennina hafa upplifað mikil vonbrigði. „Liðið, bæði starfsfólk og leikmenn, hefur barist allt tímabilið og náð árangri sem enginn taldi að væri mögulegur,“ sagði Simkin.
„Við börðumst fram á síðasta dag aðeins til að komast að því að öll baráttan hafði aldrei skipt máli. Við eigum betra skilið.“
Heimildir BBC innan úr félaginu herma að leikmenn og starfsfólk hafi verið kallað á fund eftir lokaleikinn með Jennu Burke-Martin, yfirmanni kvennaknattspyrnu hjá Wolves, og knattspyrnustjóranum Dan McNamara, þar sem liðið var upplýst um að félagið hefði aldrei sótt um þátttöku í B-deildinni fyrir kvennaliðið.
Að því er fram kemur í umfjöllun breska ríkismiðilsins voru leikmennirnir í miklu uppnámi þegar þeir fengu fréttirnar um að „leikirnir hefðu ekki skipt máli“ og að félagið hefði aldrei verið „með metnað til þess að leggja inn umsókn“ til að spila í næstu deild fyrir ofan.
Leikmennirnir eru sagðir hafa sagst vera búnir að sýna fram á að þeir væru færir um að leika vel þrátt fyrir að félagið legði kvennaliðinu lítið fé til. Þá hefðu þeir upplifað mikla vanvirðingu með að fá ekki upplýsingar um metnaðarleysi félagsins þar til tímabilinu lauk.
Til að komast upp um deild þurftu félög í C-deildinni að láta áhuga sinn í ljós í desember áður en formleg lokaumsókn var lögð inn í febrúar. Jeff Shi, stjórnarformaður Wolves, er sagður hafa neitað að skrifa undir umsóknina.
Þá er hann sagður hafa upplýst stjórn kvennaliðsins um ákvörðunina. Stjórnin ákvað í kjölfarið að leikmenn skyldu ekki upplýstir fyrr en undir lok tímabilsins.
Félagið Wolves var stofnað fyrir fimmtíu árum. Kostnaður vegna kvennaliðsins nam 300 þúsund pundum á síðasta tímabili, eða 52 milljónum króna. Þó upphæðin sé há þá er hún aðeins um 0,2% af launakostnaði félagsins, og enn smærra hlutfall af því sem það kostaði að reka allt félagið.
Meirihluti atvinnuliða kvenna skilar tapi í Englandi, líkt og karlaliðin, en ef litið er á síðasta tímabil skiluðu félögin í B-deildinni að meðaltali 709 þúsund punda tapi.
Þau viðmið sem eru sett fyrir B-deildina hvetja félög til að fjárfesta meira í kvennaliðunum og taka skref í átt að atvinnumennsku. Meðal annars þurfa félög að sýna fram á að liðin geti fengið minnst 600 áhorfendur á hvern leik.
Þá er jafnframt farið fram á að félög séu búin að ráða, á fyrsta mánuði næsta tímabils, knattspyrnustjóra yfir kvennaliðinu, markaðsstjóra, yfirþjálfara, aðstoðarþjálfara, sjúkraþjálfara, lækni, styrktarþjálfara, markmannsþjálfara og nokkra í viðbót til að gæta að öryggi og velferð leikmanna, ásamt öryggisstjóra fyrir leikdaga.
Þó félög séu ekki skyldug til að verja fastri upphæð í kvennaliðin færist þau upp um deild liggur fyrir að kostnaður myndi aukast með ríkari kröfum um starfsmannahald.
Athletic segir einn heimildarmann sinn hafa áætlað að Wolves þyrfti að verja um milljón pundum til einni og hálfri milljón árlega í kvennaliðið hefðu leikmennirnir komist upp í B-deildina.
Eigandi liðsins, kínverska samsteypan Fosun, hefur áður lýst þeirri skoðun að það sé ekki stefna Wolves að kvennaliðið þróist í atvinnumannalið heldur sé liðinu aðeins ætlað að taka þátt án nokkurra frekari markmiða.
Þeir leikmenn sem hafi hæfileika til að spila í atvinnumennsku, geti gert það fyrir annað lið. Þá hafnar Fosun jafnframt þeirri hugmyndafræði að leggja þurfi inn umsókn fyrir fram til að komast upp um deild.
Eins og staðan er núna er enginn leikmaður kvennaliðs Wolves á fullum samningi hjá félaginu.
Boða þótti gott þegar félagið réði knattspyrnustjórann McNamara, sjúkraþjálfarann Christos Christofides og styrktarþjálfarann Nathan Maxfield í fullt starf fyrir kvennaliðið síðasta sumar.
Einnig voru gerðir samningar við þrjá leikmenn liðsins, en ekki á þeim grundvelli að um fulla vinnu væri að ræða.
Um sumarið varð þó einnig bakslag þegar félagið ákvað að hætta að halda úti U21-kvennaliðinu. Þá eru orðrómar um að sumir leikmenn fái engin laun greidd heldur borgi félagið aðeins fyrir útgjöldin þeirra.
Starfsmenn eru sagðir hugsi yfir framtíð sinni hjá Wolves í ljósi efasemda um metnað félagsins fyrir kvennaboltanum. Jenna Burke-Martin hefur þegar afhent félaginu uppsagnarbréfið sitt en Athletic greinir frá því að hún sé komin með nýtt starf án þess þó að tilgreina hvað það sé.
Efnilegustu leikmenn félagsins eru einnig sagðir íhuga framtíð sína hjá Wolves.