Dyr Sixtínsku kapellunnar hafa lokast og er kardínálaþingið hafið í Vatíkaninu þar sem 133 kardínálar munu kjósa arftaka Frans páfa.
Athafnastjóri Vatíkansins, Diego Ravelli, lokaði dyrum kapellunnar klukkan 15.45 að íslenskum tíma eftir að hafa kallað á latnesku „Extra Omes“.
Er það skipun til allra þeirra sem ekki taka þátt í kosningunni að yfirgefa kapelluna.
Það er langt frá því að vera augljóst hver næsti páfi verður en innan hópsins eru bæði kardínálar sem vilja halda arfleið Frans um opnari og framsæknari kirkju á lífi sem og kardínálar sem eru mun íhaldssamari en páfinn fyrrverandi.
Hvenær nýr páfi verður kynntur er nokkuð óljóst en síðustu tveir páfar voru kjörnir innan tveggja daga frá því að kjörfundur hófst. Það þykir býsna gott en árið 1268 tók páfakjörið 1.006 daga.
Framvinda kosninganna er gefin til kynna með reyk frá strompi kapellunnar, sem kemur upp tvisvar á dag þegar kjörseðlar kardínálanna eru brenndir. Svartur reykur þýðir að engin niðurstaða hefur náðst, en hvítur reykur merkir að nýr páfi hafi verið valinn. Til að nýr páfi verði kjörinn þarf hann að fá tvo þriðju atkvæða.