Kardínálar frá fimm heimsálfum héldu lokamessu í Péturskirkjunni í Vatíkaninu í morgun en seinna í dag munu þeir loka sig inni til að kjósa nýjan páfa.
Búist er við að 133 kardínálar taki þátt í páfakjörinu og velji þar með eftirmann Frans páfa sem lést í síðasta mánuði eftir 12 ára páfadóm.
Til þess að vera kjörgengir þurfa páfarnir að vera yngri en 80 ára en Frans páfi skipaði um 80% kardínálanna sem koma til með að velja eftirmann hans.
Það er langt frá því að vera augljóst hver næsti páfi verður en innan hópsins eru bæði kardínálar sem vilja halda arfleið Frans um opnari og framsæknari kirkju á lífi sem og kardínálar sem eru mun íhaldssamari en páfinn fyrrverandi.
Páfastóllinn er almennt álitinn eitt valdamesta embætti í heimi en nýr páfi kemur til með að vera trúarlegur leiðtogi þeirra 1,3 milljarða manna sem aðhyllast kaþólska trú í heiminum.
Áskoranirnar sem standa frammi fyrir væntanlegum páfa eru því miklar nú á tímum átaka og mikillar óvissu í heimsmálunum. Innan kirkjunnar geisa sömuleiðis innri átök og enn er verið að gera upp þann mikla fjölda kynferðisbrotamála innan kirkjunnar sem upp hafa komið á síðustu árum.
Messa kardínálanna sem hófst í Péturskirkjunni klukkan átta í morgun að íslenskum tíma er síðasta opinbera athöfnin í kirkjunni þar til nýr páfi verður kynntur af svölum hennar.
Hvenær það verður nákvæmlega er nokkuð óljóst en síðustu tveir páfar voru kjörnir innan tveggja daga frá því að kjörfundur hófst. Það þykir býsna gott en árið 1268 tók páfakjörið 1.006 daga.
Klukkan 16.30 munu kardínálarnir safnast saman í Pálskirkju þar sem bæn verður haldin en þaðan halda þeir inn í Sixtínsku kapelluna þar sem páfakjörið á sér stað.
Í yfirlýsingu frá Vatíkaninu segir að um „einn leyndardóms- og dularfyllsta atburð í heimi“ sé að ræða en meðan á páfakjörinu stendur mega kardínálarnir ekki vera í neinu sambandi við umheiminn. Þá þurfa þeir að sverja þess eyð að ræða ekki leyndarmál samkomunnar utan hennar.
Eina leiðin fyrir umheiminn til að vita hvað er í gangi innan samkomunnar er í gegnum reykmerki sem send eru eftir hverja umferð páfakjörsins.
Ef ekki hefur tekist að kjósa páfa kemur svartur reykur út úr strompi Sixtínsku kapellunnar en þegar páfi hefur verið kjörinn mun hvítur reykur rjúka upp úr honum.