Hópur bandarískra öldungadeildarþingmanna hvetur fjölmiðlaveldið Paramount til að semja ekki í máli Donalds Trump Bandaríkjaforseta gegn fréttastofu í eigu fyrirtækisins. Þingmennirnir segja að málsóknin sé árás á tjáningarfrelsi.
Í bréfi til eiganda Paramount, Shari Redstone, sögðu Bernie Sanders, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, og átta þingmenn Demókrataflokksins að málsókn forsetans gegn fyrirtækinu væri „algjörlega tilefnislaus“.
„Í Bandaríkjunum fá forsetar ekki að refsa fjölmiðlum eða ritskoða þá fyrir að gagnrýna sig,“ skrifuðu þeir og bættu við:
„Prentfrelsi er það sem aðgreinir okkur frá einræðisríkjum og alræðisstjórnum.“
Trump heldur því fram að klipping á viðtali fréttaskýringarþáttarins 60 Minutes við Kamölu Harris, mótframbjóðanda hans í forsetakosningunum 2024, hafi verið hlutdræg henni í vil og „villandi“.
Þátturinn er á dagskrá sjónvarpstöðvarinnar CBS sem er í eigu Paramount en Trump sakar stöðina um að hafa sýnt tvo mismunandi búta úr sama svari sem þáverandi varaforseti gaf um Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, til að hjálpa henni í kosningabaráttu sinni.
Trump, sem fer fram á að minnsta kosti 20 milljarða dala í skaðabætur, höfðaði málið í október síðastliðnum og hélt því fram að viðtalið bryti gegn neytendalögum í Texas.
Gagnrýnendur Trumps telja málsóknina vera hluta af víðtækari árás á prentfrelsi í Bandaríkjunum sem hefur meðal annars falist í því að meina sumum blaðamönnum aðgang að Hvíta húsinu og höfða mál gegn öðrum fjölmiðlum vegna umfjöllunar þeirra.
Lögfræðingar hafa haldið því fram að ef málsóknin endar fyrir rétti yrði lagalegur sigur í hendi fyrir CBS.