Finnsk orrustuþota af gerðinni F/A-18 Hornet hrapaði í morgun nálægt Rovaniemi-flugvellinum í norðurhluta Finnlands. Að sögn hersins komst flugmaðurinn lífs af eftir að hafa skotið sér út úr vélinni.
Ekki er vitað hver orsök slyssins, sem varð um klukkan 11 að staðartíma, en í færslu finnska hersins á miðlinum X segir að flugmaðurinn sem slapp úr vélinni í skotstól hafi verið fluttur á heilbrigðisstofnun til frekari skoðunar.
Jafnframt kom fram að enginn annar hafi slasast í slysinu.
Sjónarvottar sáu dökkan reyk rísa frá slysstað og nokkra umferð viðbragðsaðila í nágrenninu.
Þá sagði einn sjónarvottur finnska miðlinum YLE frá því hvernig hann sá þotuna fljúga óvenju lágt yfir íbúðahverfið Syvasenvaara áður en hún virtist stöðvast og nef vélarinnar snerist upp.
„Flugvélin sneri mjög ákveðið upp og fór á hvolf, ef svo má að orði komast. Svo liðu nokkrar sekúndur og ég sá svart reykjarský. Ég sá ekki eldinn, bara svartan hræðilegan reyk,“ lýsti sjónarvotturinn.
Ekki er gert ráð fyrir að slysið hafi áhrif á aðra flugumferð á svæðinu.