Auðugustu 10 prósent jarðarbúa bera ábyrgð á stærstum hluta hlýnunar jarðar frá árinu 1990, að sögn vísindamanna. Auðugasta prósentið á nú meira en samanlagður auður 95 prósent mannkyns. Ný rannsókn varpar ljósi á þær afleiðingar sem hinir allra auðugustu valda.
Neysluhegðun þeirra ríkustu í heiminum hefur aukið verulega hættuna á lífshættulegum hitabylgjum og þurrki, segir í rannsókninni.
Rannsóknin kemur frá ETH-háskólann í Zürich, en hann er talinn vera einn af fremstu háskólum heims þegar kemur að vísindum og tækni. Samkvæmt rannsókninni, lagði auðugasta eitt prósent jarðarbúa 26 sinnum meira til losunar sem valda hitabylgjum og 17 sinnum meira til losunar sem stuðlar að þurrkum í Amazon-regnskóginum, miðað við heimsmeðaltal.
„Við tengjum kolefnisspor auðugustu einstaklinga í heiminum beint við raunveruleg áhrif loftslagsbreytinga,” sagði Sarah Schoengart, höfundur rannsóknarinnar og vísindamaður við ETH-háskólann í Zürich. „Nú þarf að krefjast þess að þeir auðugustu beri ábyrgð á raunverulegum loftslagsvanda.”
Samkvæmt höfundum rannsóknarinnar hefur brennsla jarðefnaeldsneytis og eyðing skóga hækkað meðalyfirborðshita jarðar um 1,3 gráður á síðustu 30 árum.
Um 10 prósent auðugustu einstaklinga í Kína og Bandaríkjunum standa samanlagt fyrir nærri helmingi af losun kolefnis í heiminum.
„Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum sem ekki beinast að ábyrgð þeirra auðugustu hafa því ekki eins mikil áhrif á meðan hugarfar og losun hinna auðugu helst óbreytt,“ sagði Carl-Friedrich Schleussner, meðhöfundur rannsóknarinnar.
Schleussner bendir á að þeir allra auðugustu geti verið dregnir til ábyrgðar fyrir þann loftslagsskaða sem þeir valda með hærri sköttum á auð og kolefnisfrekar fjárfestingar.