Viðbragðsaðilar á Gasa segja að öll starfsemi þeirra sé nánast stopp rúmum tveimur mánuðum eftir að Ísraelar bönnuðu allan innflutning á nauðsynjum inn á svæðið. Mikill skortur er á mat og eldsneyti á Gasa.
Ísraelsk stjórnvöld neita því að alvarleg mannúðarkrísa sé skapast á svæðinu, en Ísraelar hyggjast útvíkka hernaðaraðgerðir sínar til að þvinga Hamas til að láta þá gísla lausa sem hafa verið haldið þar síðan hryðjuverkasamtökin réðust á Ísrael í október 2023.
„Sjötíu og fimm prósent ökutækja okkar eru stopp vegna skorts á dísilolíu,“ sagði Mahmud Bassal, talsmaður almannavarna á Gasa, við AFP.
Hann bætti við að almannavarnir og viðbragðsaðilar stæðu einnig frammi fyrir alvarlegum skorti á rafölum og súrefnisbúnaði.
Stofnanir á vegum Sameinuðu þjóðanna, auk annarra hjálparstofnana, hafa vikum saman varað við því ástandi sem er að skapast á Gasa, þ.e. að eldsneytis-, lyfja- og matarbirgðir séu að klárast. Þá sé skortur á aðgengi að neysluvatni. Um 2,4 milljónir búa á Gasa.
„Það er óásættanlegt að mannúðaraðstoð sé ekki leyfð inn á Gasasvæðið,“ sagði Pierre Krahenbuhl, framkvæmdastjóri Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC), við blaðamenn í Genf í dag.
Hann bætti við að ástandið á Gasa standi á hnífsbrún og að næstu dagar myndu segja mikið um framhaldið fyrir íbúana.
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, varaði við því að börn á Gasa stæðu frammi fyrir aukinni hættu á hungursneyð, veikindum og dauða eftir að eldhúsum, sem studd eru af Sameinuðu þjóðunum, var lokað vegna skorts á matarbirgðum.