Hundruð flugferða um alþjóðlega flugvelli í Moskvu hafa tafist eða verið felldar niður eftir drífu drónaárása frá Úkraínu á síðastliðnum þremur dögum.
Í dag hófst þriggja daga sigurhátíð í Rússlandi, þar sem endalokum seinni heimstyrjaldarinnar er fagnað. Árásirnar eru gerðar í kjölfar þess að Vladimír Pútín og Kremlverjar boðuðu einhliða þriggja daga vopnahlé í átökunum í Úkraínu á meðan hátíðarhöldin færu fram. Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hafnaði vopnahléinu og kallaði það leikrit.
Að minnsta kosti 60.000 farþegar og um 350 flugferðir hafa orðið fyrir barðinu á árásunum sem ekki eru taldar hafa annað taktískt gildi en að trufla sigurhátíðina.
Í dag er þriðji dagurinn í röð þar sem rússnesk stjórnvöld greina frá því að drónar frá Úkraínu hafi verið skotnir niður í nágrenni höfuðborgarinnar.
Forseti Serbíu, Aleksandar Vučić, er einn þeirra sem ekki fóru varhluta af árásunum. Beina þurfti Moskvuflugi hans til Bakú í Aserbaísjan vegna ógnar í rússneskri lofthelgi.
ESB varaði Vučić við að mæta og sagði að þátttaka hans í hátíðahöldunum í Moskvu gæti grafið undan aðildarumsókn Serbíu að sambandinu.
Einnig var greint frá því að lönd á borð við Litháen, Lettland og Eistland hafi hafnað beiðnum Vučić um flugheimildir til hátíðarhaldanna í Moskvu.