Kona var drepin með öxi við háskólann í Varsjá í Póllandi í gærkvöld þegar vopnaður maður réðst á fólk á háskólasvæðinu.
Lögreglan segir að konan hafi verið starfsmaður skólans og þá hafi öryggisvörður verið fluttur á sjúkrahús með alvarlega áverka.
22 ára gamall karlmaður var handtekinn og að sögn pólska fréttamiðilsins var árásarmaðurinn laganemi á þriðja ári við skólann.
Í yfirlýsingu sagði rektor háskólans að dagurinn í dag væri sorgardagur og lýsti árásinni sem miklum harmleik.
„Við vottum fjölskyldunni og ástvinum mikla sorg okkar og samúð,“ segir í yfirlýsingunni.