Tveir voru skotnir til bana í úthverfi Kænugarðs í dag. Að sögn lögreglunnar varðar málið deilu um sölu á skotvopni.
Hinn grunaði er karlmaður á sjötugsaldri sem sagður er hafa fest kaup á skotvopni frá fyrrverandi hermanni sem síðar er sagður hafa krafist hærri upphæðar fyrir vopnið.
Sá grunaði er sagður hafa hleypt af byssunni er hann deildi við hermanninn fyrrverandi um verðið á vopninu. Skaut hann bæði hermanninn og tengdamóður hans sem var einnig í húsinu.
„Lögreglan fór í sérstaka aðgerð og handtók byssumanninn á innan við klukkutíma,“ sagði í yfirlýsingu lögreglunnar.
Á myndskeiði sem úkraínskir miðlar birtu mátti sjá mikið viðbragð við íbúðarhúsnæðið þar sem verknaðurinn var framinn.
Skotárásir eru ekki óþekktar í Úkraínu, sem verst nú innrásarstríði Rússa, en glæpatíðni er almennt ekki há í landinu.