Tveir menn hafa verið sakfelldir fyrir að fella heimsfrægt tré í Bretlandi „vísvitandi og tilgangslaust“. Málið hefur vakið mikla hneykslan.
Kviðdómur í Newcastle komst í morgun að þeirri niðurstöðu að fyrrverandi vinirnir, Daniel Graham sem er 39 ára jarðvinnumaður og Adam Carruthers sem er 32 ára vélvirki, væru sekir um skemmdarverk en þeir felldu heimsfrægt tré sem stóð við svokallað Sycamore-skarð í Norðymbralandi á Englandi.
Tréð, sem var forn garðahlynur, var í eigu breska náttúruverndarráðsins National Trust og fannst liggjandi við Hadríanusarmúrinn í september 2023.
Graham og Carruthers voru sakaðir um að hafa valdið skemmdum sem nema 622.191 pundi. Það jafngildir um 108 milljónum króna.
Saksóknarar í málinu sögðu fyrir dómi að mennirnir tveir hefðu fellt tréð með keðjusög „í vísvitandi og tilgangslausu skemmdarverki,“ sem þeir tóku upp á síma Grahams og deildu síðan með öðrum.
Í málsgögnum kom fram að þeir hefðu ekið á vettvang í Range Rover-bifreið Grahams og fellt tréð með vélsög, sagað í gegnum bolinn á „nokkrum mínútum“.
„Eftir að hafa lokið þessu heimskulega verkefni sínu, fóru þeir aftur inn í Range Rover-bifreiðina og óku til baka,“ lýsti einn saksóknarinn í málinu, Richard Wright, fyrir dómnum.
Félagarnir deildu í kjölfarið myndbandi af verknaðinum sem vakti mikla athygli
Í raddskeyti sem Graham sendi Carruthers degi eftir verknaðinn sagði hann: „Þetta er orðið alþjóðlegt. Þetta verður í ITV-fréttunum í kvöld.“
„Þeir halda enn að þetta sé fyndið, eða sniðugt, eða stórkostlegt,“ sagði saksóknarinn Wright um viðbrögð félaganna.