Þess var í gær minnst á Vesturlöndum að 80 ár eru liðin frá skilyrðislausri uppgjöf Þriðja ríkis Þýskalands, 8. maí 1945 klukkan 23.01. Voru það hershöfðinginn Alfred Jodl og Wilhelm Keitel marskálkur sem rituðu undir samninga um uppgjöf Þriðja ríkisins.
Í Lundúnum má segja að sl. vika hafi verið undirlögð af hátíðahöldum og minningarathöfnum í tengslum við tímamótin miklu. Heiðursvörður breska hersins, bandalagshermenn og fulltrúar Úkraínuhers gengu fylktu liði við Buckinghamhöll skömmu áður en orrustu- og sprengjuflugvélar flugu þar yfir og lituðu himininn með bláum, rauðum og hvítum reyk sem táknuðu fánaliti Bretlands. Þá tók einnig hinn tíu ára gamli Alexander Churchill, barnabarnabarnabarn Winstons Churchills forsætisráðherra á tímum seinna stríðs, þátt í athöfninni. Kveikti hann á friðarkerti að viðstöddu margmenni, m.a. konungsfjölskyldunni.
Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands segir hátíðahöldin nú vera haldin í skugga árásarstríðs Rússlands í Evrópu. Nú, líkt og á tímum seinna stríðs, sé vegið að lýðræði, frelsi og fullveldi Evrópu.
„Sú hugsun að þetta tilheyri einungis sögunni og skipti því litlu máli nú er alrang. Það að staðinn sé vörður um frelsi og lýðræði okkar tíma skiptir höfuðmáli,“ segir forsætisráðherrann.
Frank-Walter Steinmeier Þýskalandsforseti minntist í ávarpi sínu á þá skelfilegu stöðu sem blasti við Þjóðverjum á þessum degi fyrir 80 árum. Á sama tíma og landið var rústir einar eftir áralanga styrjöld sagði hann þjóð sína þakkláta Bandaríkjunum, Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Úkraínu – fórn hersveita þessara ríkja tryggði sigur á hatri og fasisma. Þýskaland nú skuldar Evrópu að dreginn sé lærdómur af ógnarstjórn nasista Þriðja ríkisins.
„Það er þess vegna sem við mótmælum þeim lygum sem í dag streyma frá Rússlandi. Og við munum halda áfram að mótmæla þeim á morgun. Árásarstríð Rússlands í Úkraínu á ekkert skylt við þá baráttu sem háð var gegn einræði nasista. Ef við skiljum Úkraínu eftir varnarlausa, þá erum við að kasta frá okkur öllum þeim lærdómi sem fengist hefur frá 8. maí. Þeir sem eitt sinn frelsuðu fanga Auschwitz eru nú orðnir að ofbeldisseggjum,“ sagði Steinmeier Þýskalandsforseti.
Sigurdagurinn svonefndi er í dag haldinn hátíðlegur á Rauða torginu í Moskvu. Venju samkvæmt fer þar fram hersýning og má gera ráð fyrir að bryntæki af gerðinni T-34, sem er nokkurs konar tákn fyrir sigur Sovétríkjanna í seinna stríði, leiði hópinn.
Frá upphafi Úkraínustríðsins hefur umfang hersýningarinnar í Moskvu þó minnkað umtalsvert og er það til marks um gríðarlegt tækjatjón og blóðtöku hersins þar og hversu tækja- og mannaflafrek aðgerðin er.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir sigurdaginn í Moskvu vera hreina móðgun við þá fórn sem Sovétmenn færðu í seinna stríði. Stjórnvöld í Rússlandi beiti daglegu ofbeldi og Rússlandsher fremji skipulagða stríðsglæpi og ofbeldisverk í garð saklauss fólks á degi hverjum í Úkraínu.
Á sama tíma og gestir Kremlar tínast til Moskvu einn af öðrum til að vera viðstaddir athöfnina þar gera drónar Úkraínuhers árásir á rússneskt land, þ. á m. sjálfa höfuðborgina. Þótt Kænugarður hafi ekki tilkynnt um yfirvofandi árás á hersýninguna segja sérfræðingar og fv. herstjórnendur á Vesturlöndum heraflann á Rauða torginu vera fyllilega lögmætt skotmark. Úkraína eigi í stríði við Rússland og heimilt sé samkvæmt lögum um vopnuð átök að gera árás á hersöfnuð andstæðingsins, sama hvar hann er staddur hverju sinni.
Einn þeirra er breski undirhershöfðinginn fv. Mick Ryan. Stór hersöfnuður andstæðingsins sé ávallt lögmætt skotmark í vopnuðum átökum.
„Það skiptir engu máli hvar þessir hermenn eru staddir. Ef hægt er að ráðast á þá, þá eru þeir lögmætt skotmark enda eiga þeir í stríði við Úkraínu. Ég myndi gjarnan vilja sjá Úkraínuher gera árásir á sigurhátíð Rússlands. Það væri ekki bara lögleg hernaðaraðgerð heldur sterk skilaboð til rússnesku þjóðarinnar um þá staðreynd að Pútín [Rússlandsforseti] stendur höllum fæti. Það eina sem mælir gegn árás er sú hætta að þjóðin kann að fylkja sér á bak við forseta sinn. Staðan er því nokkuð snúin. Það má ekki heldur gleyma því að loftárásir Þriðja ríkisins á Lundúnir brutu ekki niður vilja fólksins heldur hertu þær hann,“ segir Ryan undirhershöfðingi í samtali við Times Radio, en ljóst er að Kreml óttast árásir og hefur eflt loftvarnir í miðborg Moskvu.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.