Pakistan beindi árásardrónum að Indlandi annað kvöldið í röð.
Heimildarmaður AFP-fréttaveitunnar segir drónana hafa m.a. sést við borgina Jammu í Kasmír-héraði.
Omar Abdulla, sem fer með völd í þeim hluta Kasmír sem Indverjar stjórna, segir hljóð frá sprengingum hafa heyrst í Jammu og að rafmagnslaust væri í borginni.
Blaðamaður AFP í indverska þorpinu Poonch heyrði einnig í loftárás.
Spennan milli Indlands og Pakistans hefur stigmagnast í átökum milli ríkjanna síðustu daga. Tugir hafa fallið í árásunum.
Alþjóðasamfélagið hefur biðlað til stjórnvalda í Pakistan og Indlandi að láta af árásunum og draga úr spennunni milli ríkjanna.