Vladimír Pútín Rússlandsforseti hét því á sigurhátíð Rússa á Rauða torginu í dag að Rússland myndi sigra Úkraínu. Fullyrti Pútín að Rússar hefðu hafið allsherjarinnrás sína árið 2022 til að „afnasistavæða“ landið.
„Við erum stolt af hugrekki rússnesku þjóðarinnar. Ákveðni og þrautseigja hefur alltaf fært okkur sigur. Rússland hefur verið og mun áfram vera ósigrandi gegn nasisma, rússafóbíu og gyðingahatri,” sagði Pútín.
Þúsundir hermanna örkuðu á Rauða torginu í Moskvu í dag og mátti líta urmul rússneskra hergagna, þar á meðal árásardróna og gríðarlegan fjölda skriðdreka.
Öryggisráðstafanir voru miklar fyrir sigurhátíðina, þar sem Rússar óttuðust að hátíðin gæti verið skotmark fyrir Úkraínu. Leyniskyttur voru staðsettar á þaki verslunarmiðstöðvar við Rauða torgið og farsímanet var truflað. Engar fregnir bárust hins vegar af tilraunum til árása á Moskvuborg.
Pútín ávarpaði þúsundir hermanna og ýmsa þjóðarleiðtoga sem lögðu leið sína til Moskvu og sagði að Rússland hefði lært margar lexíur frá síðari heimsstyrjöld. Reyndi hann að tengja styrjöldina við núverandi innrás Rússa í Úkraínu og sagði Pútín að allt Rússland stæði heilshugar á bak við sig.
Stórnvöld í Úkraínu halda því fram að sigurhátíðin hafi ekkert með sigurinn á nasisma að gera og þeir sem örkuðu um Rauða torgið væru að öllum líkindum stríðsglæpamenn.
Á meðan sigurhátíðin fór fram voru utanríkisráðherrar Evrópusambandsins til Lvív í vesturhluta Úkraínu til að sýna stuðning sinn við Úkraínu.
Leiðtogar Evrópuríkja munu koma saman í Úkraínu á morgun.