Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist vonast til þess að hitta framkvæmdastjóra Evrópusambandsins til að ræða tollamál milli Bandaríkjanna og sambandsins, hina „frábæru“ Ursulu von der Leyen. Koma ummæli hans í kjölfar þess að Bandaríkin og Bretland hefðu komist að samkomulagi um tollamál, en þeir samningar hafa aukið væntingar embættismanna í Evrópu um að einnig verði hægt að semja við Bandaríkjamenn.
Trump tilkynnti um 20% tolla á lönd Evrópusambandsins í apríl, líkt og hann gerði við öll önnur lönd í heiminum. Þá tilkynnti hann einnig um viðbótartolla á ýmis lönd vegna vöruskiptahalla Bandaríkjanna við þau lönd. Hafa þeir viðbótartollar verið allt að 145% í tilfelli Kína.
Trump ákvað að fresta gildistöku tollahækkananna fram í júlí, að undanskyldum 10% grunntollum á öll lönd. Sagði hann það meðal annars vegna þess að yfir 75 lönd hefðu beðið um samningaviðræður við Bandaríkin um tollana.
Í gær var svo greint frá því að Bretland og Bandaríkin hefðu náð saman um lækkun á tollum sem lúta að útflutningi Bandaríkjanna til Bretlands á nautakjöti, etanóli og öðrum landbúnaðarafurðum. Einnig verður tollur á bíla sem fluttir eru inn til Bandaríkjanna frá Bretlandi lækkaður úr 25% niður í 10% fyrir 100 þúsund bifreiðar á ári, sem og tollar á stál og ál.
Í kjölfar þessara samninga sagðist Trump spenntur að ræða við Evrópusambandið. „Hún er frábær. Ég vona að við getum hist,“ sagði hann um von der Leyen. „Evrópusambandið skiptir miklu máli, þeir vilja gríðarlega mikið ná samningum við okkur,“ bætti Trump við.
Hafði Trump áður sagt að samningurinn við Bretland væri sá fyrsti af mörgum og að hann vonaðist eftir að erfiðar samningaviðræður við Evrópusambandið og Kína gætu skilað árangri fljótlega.