Utanríkisráðherra Indlands, Vikram Misri, segir Pakistan hafa ítrekað brotið gegn vopnahléi sem samþykkt var fyrir aðeins nokkrum klukkutímum. Indverskar hersveitir séu nú að beita gagnárásum.
Vopnahlé var samþykkt á milli landanna í hádeginu í dag en Pakistanar voru sakaðir um að rjúfa það skömmu síðar.
Shehbaz Sharif, forsætisráðherra Pakistans, minntist aftur á móti ekkert á ásakanir Indverja í ávarpi sem hann flutti fyrr í kvöld en Sharif hrósaði þar Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir hans aðkomu að vopnahlésviðræðunum og þakkaði einnig öðrum ríkjum.
Utanríkisráðuneytið í Pakistan hefur hins vegar svarað ásökum Misri og sagt að landið sé staðráðið í að framfylgja vopnahléinu.
Þá sakar ráðuneytið Indland um að fremja brot gegn vopnahléinu, sem pakistanskir hermenn takist nú á með stillingu.
Segir í yfirlýsingu ráðuneytisins að öll vandamál varðandi framkvæmd vopnahlésins ætti að leysa með samskiptum á viðeigandi stigum.
Fyrr í dag ómuðu sprengingar í Srinagar í Kasmír, sem er undir stjórn Indlands, aðeins nokkrum tímum eftir að Trump tilkynnti um vopnahléið.
Þá skrifaði Omar Abdullah, forsætisráðherra í Jammu og Kasmír, á samfélagsmiðilinn X að það væri „ekkert vopnahlé“ og birti með færslunni myndband þar sem greinilega heyrist í skothljóðum.
Um 60 manns hafa fallið í árásunum vegna átaka Indlands og Pakistans síðustu daga.