Spænsk yfirvöld sögðu meira en 160 þúsund manns í grennd við Barcelona að halda sig innandyra í dag eftir að eldur í iðnaðarhúsnæði losaði eitrað klórský yfir stórt svæði.
Eldurinn kviknaði í byggingu sem geymdi hreinsiefni í sundlaugar í strandborginni Vilanova i la Geltru rétt suður af Barcelona að sögn slökkviliðsins.
Almannavarnaþjónusta á svæðinu hefur beint þeim tilmælum til fólks að halda sig innandyra en hættusvæðið nær yfir fimm sveitarfélög frá Vilanova i la Geltru til þorpsins Calafell, nálægt Tarragona.
Slökkviliðið greinir frá því á samfélagsmiðlinum X að ekki hafi verið tilkynnt um mannfall vegna eldsvoðans.