Leó XIV., nýkjörinn páfi, hvatti til varanlegs friðar í Úkraínustríðinu og vopnahlés á Gasa auk þess sem hann fagnaði friðarsamkomulagi Indlands og Pakistan frá því í gær í ávarpi sínu á Péturstorginu í Róm í dag.
Leó páfi, sem verður formlega vígður í messu á Péturstorginu á sunnudaginn eftir viku, hvatti til að binda enda á stríð í heiminum.
Eins og forveri hans, Frans páfi sem lést á öðrum degi páska, bað hann um „sanngjarnan, réttlátan og varanlegan frið“ í Úkraínu og sagðist vera „mjög hryggur“ vegna atburða á Gasa-svæðinu og kallaði eftir vopnahléi í stríðinu milli Ísraels og Hamas.
„Það verður að veita mannúðaraðstoð til örmagna óbreyttra borgara og frelsa alla gíslana,“ sagði Léo en hann fór einnig með Regina Caeli bænina, til heiðurs Maríu mey, í ávarpi sínu til mannfjöldans á Péturstorgi.