Trump-stjórnin í Bandaríkjunum hyggst þiggja lúxusþotu að gjöf frá konungsfjölskyldunni í Katar, sem á bæði að vera ný forsetaþota en einnig einkaþota Trumps eftir að hann lætur af embætti.
Frá þessu greina ABC og Times en báðir miðlar hafa þetta eftir hásettum embættismanni sem hafi þekkingu á málinu. Gjöfin gæti verið sú allra dýrasta sem Bandaríkjastjórn hefur þegið.
Vélin er að tegundinni Boeing 747-800 flugvél. Áætlað virði þotunnar, sem hefur verið kölluð höll á himni, er talið vera um 400 milljónir dollara (52 ma. kr).
Vélin myndi leysa af hólmi núverandi Air Force One-þotu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta en hann er einnig sagður ætla að eiga vélina sjálfur eftir að hann lætur af embætti.
ABC hefur eftir embættismanni að flugvélin verði gefin forsetabókasafni Trumps þegar hann lætur af embætti, sem geri honum kleift að halda áfram að nota hana þó hann sé ekki lengur forseti. Ekki hafa fengist viðbrögð frá Hvíta húsinu vegna málsins.
Auk þess hefur Times eftir heimildarmanni sínum innan Trumps-stjórnarinnar að vélin gæti verið sú stærsta sem bandarísk stjórnvöld þiggja.
Búist er við að greint verði frá gjöfinni í næstu viku, þegar Trump heimsækir Katar í sinnu fyrstu utanlandsferð á öðru kjörtímabili sínu, samkvæmt heimildum ABC.
Pam Bondi dómsmálaráðherra og David Warrington, æðsti lögmaður Trumps í Hvíta húsinu, eru sögð hafa komist að þeirri niðurstöðu að það væri löglegt að þiggja gjöfina með því skilyrði að eignarhald hennar yrði flutt yfir á forsetabókasafn Trumps fyrir lok kjörtímabils hans.