Indverski herinn segir að síðasta nótt hafi verið fyrsta friðsama nóttin síðan að aukin átök hófust á milli Indlands og Pakistans í síðustu viku.
Samið var um óvænt vopnahlé á milli Indlands og Pakistans á laugardag eftir að ríkin höfðu skipst á eldflaugaárásum síðan á þriðjudaginn í síðustu viku. Skömmu eftir að samið hafði verið um vopnahlé sökuðu ríkin tvö hvort annað um að hafa rofið það.
Átökin hafa verið þau verstu í að verða þrjá áratugi og var óttast um að þau myndu leiða til allsherjarstríðs milli ríkjanna.
Þetta var einnig önnur nóttin í röð án skotárása í Poonch, bæ í indverska hluta Kasmír, sem hefur verið eitt verst útsett í átökunum. Að minnsta kosti 12 manns hafa látið lífið á svæðinu og yfir 60 þúsund manns hafa flúið heimili sín.
Einhverjir hafa þó snúið aftur til síns heima eftir að tilkynnt var um vopnahlé en íbúar Poonch sem AFP-fréttastofan hefur rætt við eru enn taugaóstyrkir vegna stöðunnar og óttast að það komi til frekari átaka.
Herforingjar beggja ríkja munu ræða saman í kvöld um framvindu vopnahlésins. Upphaflega stóð til að þeir myndu ræða saman undir morgun en samtalinu var frestað fram á kvöld.
Talið er að símtal herforingjanna muni fyrst og fremst snúast um útfærslu vopnahlésins til að koma í veg fyrir allan misskilning milli ríkjanna.
Æðstu herforingjar Indlands og Pakistans héldu blaðamannafund seint í gærkvöldi þar sem þeir fullyrtu báðir að þeir hefðu yfirhöndina og vöruðu við því að þeir væru tilbúnir ef til frekari árása kæmi.
„Við höfum hingað til sýnt mikla stillingu og aðgerðir okkar hafa verið markvissar, hóflegar og ekki ætlaðar til að auka spennu. Öllum ógnum við fullveldi, landamæri okkar og öryggi borgaranna verður mætt af ákveðnum krafti,“ sagði indverski herforinginn Rajiv Ghai.