Maður á sjötugsaldri, sem fengið hefur viðurnefnið Kartöflumaðurinn í dönskum fjölmiðlum, hefur verið dæmdur í eins árs og níu mánaða fangelsi fyrir að hafa stefnt vegfarendum í hættu þegar hann affermdi nokkur tonn af karftöflum á þjóðveg í Jótlandi í júní árið 2023.
René Spang Jørgensen, hinn svonefndi Kartöflumaður, segist ekki sjá eftir neinu. Hann var að mótmæla fyrirhuguðu kílómetragjaldi fyrir vörubílstjóra þegar hann losaði kartöflurnar á veginn. Hann segir dóminn pólitískan og hyggst áfrýja honum.
Danska ríkisútvarpið greinir frá.
Jørgensen var m.a. dæmdur fyrir skemmdarverk og að skapa hættu á veginum. Sjálfur segist hann hafa gengið úr skugga um að ökumönnum yrði ekki stefnt í hættu við verknaðinn og telur hann dóminn því ósanngjarnan.
„Enginn vildi hlusta svo við urðum að grípa til annarra ráðstafana,“ segir Jørgensen sem kveðst handviss um að dómurinn hafi verið pólitískur. Maður hafi verið dæmdur í fangelsi „sem hafi gagnrýnt kerfið“.
Jørgensen er talsmaður samtakanna Engir bændur, enginn matur, engin framtíð, sem leggja áherslu á að skrifræði, skattar og græna byltingin séu íþyngjandi fyrir landsbyggðina.