Mál þriggja Íslendinga sem handteknir voru í bænum La Vila Joiosa á Spáni í lok mars er ekki á borði borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Hópurinn er tengdur fjölskylduböndum.
mbl.is fjallaði í morgun um mál þriggja Íslendinga sem voru handteknir í bænum La Vila Joiosa á Spáni í lok mars fyrir að reyna að smygla fíkniefnum til eyjunnar Ibiza.
Um hálft kíló af fíkniefnum fannst í bifreið Íslendinganna þar sem þeir reyndu að komast um borð í ferju til eyjunnar.
Í samtali við mbl.is staðfestir Ægir Þór Eysteinsson, upplýsingafulltrúi hjá utanríkisráðuneytinu, að umrætt mál sé ekki á borði borgaraþjónustu ráðuneytisins.
Í umfjöllun spænska miðilsins Informacion um málið kemur fram að hópurinn, sem samanstendur af tveimur konum og einum karlmanni á aldrinum 24-48 ára, sé tengdur fjölskylduböndum og að þau hafi verið ákærð fyrir að fremja glæp gegn almannaheilbrigði.
Auk fíkniefnanna fannst lofttæmingarvél, pokar og plastfilma í bíl hópsins og er það talið vera vísbending um að selja átti efnin á Ibiza.
Spænskir dómstólar hafa ákveðið að Íslendingarnir fái að ganga lausir gegn tryggingu á meðan rannsókn málsins stendur yfir.