Virði hlutabréfa á mörkuðum vestanhafs hækkuðu verulega í dag í kjölfar þess að Bandaríkin og Kína tilkynntu um verulega lækkun tolla næstu 90 daga.
Dow Jones-vísitalan hækkaði um 1.160 punkta, eða um 2,8%, S&P 500 um 3,26% og Nasdaq um 4,35%.
Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal greinir frá.
Bandarísk og kínversk yfirvöld tilkynntu í morgun að þau hefðu náð samkomulagi um að draga tímabundið úr þeim íþyngjandi tollum sem ríkin hafa lagt hvort á annað í tilraun til að draga úr viðskiptastríði ríkjanna sem hefur ógnað þessum tveimur stærstu hagkerfum heims.
Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkjanna kemur fram að þau muni fresta himinháum tollum í 90 daga til að skapa svigrúm fyrir samningaviðræður.
Samkvæmt samkomulaginu munu Bandaríkin lækka toll á kínverskum innflutningi niður í 30 prósent úr núverandi 145 prósentum, á meðan Kína mun lækka innflutningsgjöld sín á bandarískum vörum niður í 10 prósent úr 125 prósentum.
Samkomulagið lækkaði tolla mun meira en margir á Wall Street bjuggust við og einn greinandi, Dan Ives frá Wedbush Securities, kallaði samninginn „bestu mögulegu niðurstöðu“ fyrir fjárfesta í samtali við Wall Street Journal.
Goldman Sachs lækkaði líkurnar á samdrætti í Bandaríkjunum úr 45% í 35% og hækkaði hagvaxtarspá sína.