Mikil hætta er á því að hungursneyð sé yfirvofandi á Gasaströndinni að mati fæðuöryggissérfræðings á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Ísraelar hafa ekki hleypt hjálpargögnum inn á Gasa síðastliðna tvo mánuði og hefur staðan í fæðuöryggismálum versnað verulega á þeim tíma.
Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna segir að landbúnaður á Gasa sé að hruni kominn. Stofnunin hefur kallað eftir því að innflutningstakmörkunum verði hætt enda sé það nauðsynlegt til þess að hægt sé að halda uppi matvælaframleiðslu á svæðinu.
„Fjölskyldur á Gasaströndinni eru að svelta á sama tíma og matur er til staðar á landamærunum við Ísrael, ef bíða á eftir því að hungursneyð skelli á áður en gripið er til aðgerða þá verður það of seint fyrir of margt fólk,“ segir Cindy Mccain, framkvæmdastjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna.