Norska ríkið verður hluthafi í Norwegian með 6,4 prósent hlutafjár. Þetta kemur fram í tilkynningu sem barst norsku kauphöllinni í morgun. NRK greinir frá þessu.
Ríkið veitti flugfélaginu neyðarlán á tímum kórónuveirufaraldursins og í stað þess að Norwegian þurfi nú að endurgreiða allt lánið fær ríkið eignarhlut.
Auk hlutabréfa fær ríkið einnig endurgreitt helming lánsins sem nam 1,2 milljörðum norskra króna. Það jafngildir um 15 milljörðum íslenskra króna.
„Við erum mjög ánægð með þessi viðskipti, þetta eru mjög góð viðskipti fyrir Norwegian og við erum mjög ánægð með samstarfið við ríkið í gegnum tíðina,“ sagði Hans-Jørgen Wibstad, fjármálastjóri Norweigian, í samtali við NRK.
Þá kemur fram að það var Norwegian sem óskaði eftir þessari lausn.