Það kveður við annan tón hjá Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands og formanns Verkamannaflokksins, í útlendingamálum en í dag kynnti hann áform um að fækka verulega komu innflytjenda til landsins.
Hann sagði innflytjendastefnu íhaldsmanna í fyrri ríkisstjórn hafa verið „tilraun með opnum landamærum“ sem nú sé lokið.
Hann varaði við því að Bretland gæti orðið að „eyju ókunnugra“ ef innflytjendareglur yrðu ekki hertar og ef innflytjendur myndu ekki aðlagast bresku samfélagi.
Á síðasta ári komu 728 þúsund innflytjendur til Bretlands og árið þar á undan hátt í milljón. Með nýjum áformum ríkisstjórnarinnar er áætlað að komum innflytjenda geti fækkað árlega um hundrað þúsund til ársins 2029.
Íhaldsflokkurinn og Umbótaflokkurinn segja þetta aftur á móti alls ekki nóg þar sem þetta þýði að áfram verða nokkur hundruð þúsund innflytjendur sem koma árlega til landsins.
Yfirráðgjafi ríkisstjórnarinnar í innflytjendamálum segir að með þessum aðgerðum megi áætla að eftir nokkur ár verði um 250 þúsund innflytjendur sem muni komi árlega til Bretlands.
Stefnuskjal ríkisstjórnarinnar um innflytjendamál, svokölluð Hvítbók um innflytjendamál, inniheldur áform um að fækka komu erlends starfsfólks á breskum vinnumarkaði og lengja þann tíma sem fólk þarf að búa í Bretlandi áður en það öðlast rétt til ríkisborgararéttar úr fimm árum í tíu ár.
Reglur um enskukunnáttu verða einnig hertar fyrir þá sem koma til landsins til að vinna þannig að krafa verður um að viðkomandi geti sýnt fram á grundvallarskilning.
Starmer útilokaði ekki að herða reglur enn frekar.
„Ef við þurfum að taka frekari skref, ef við þurfum að gera meira til að létta á þrýstingi á húsnæðismarkaði og opinbera þjónustu okkar, þá getið þið verið viss um að við munum gera það,“ sagði Starmer.
Í frétt breska dagblaðsins Telegraph er rakið hvernig afstaða Starmers hefur breyst á undanförnum árum.
Þegar hann bauð sig fram til forystu Verkamannaflokksins 2020 krafðist hann til dæmis frjálsra flutninga fólks á milli landa eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, auk þess að ríkisborgarar innan Evrópusambandsins væru með kosningarétt í Bretlandi ef þeir væru búsettir þar.
Útlendingamál eru hitamál í Bretlandi eins og í mörgum öðrum Evrópuríkjum. Umbótaflokkurinn vann til að mynda stórsigur í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum í Bretlandi en sá flokkur leggur höfuðáherslu á að fækka innflytjendum.