Starmer: Tilraun með opnum landamærum lokið

Starmer lofar því að ná stjórn á landamærum Bretlands á …
Starmer lofar því að ná stjórn á landamærum Bretlands á ný. AFP/Ian Vogler

Það kveður við ann­an tón hjá Keir Star­mer, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands og for­manns Verka­manna­flokks­ins, í út­lend­inga­mál­um en í dag kynnti hann áform um að fækka veru­lega komu inn­flytj­enda til lands­ins.

Hann sagði inn­flytj­enda­stefnu íhalds­manna í fyrri rík­is­stjórn hafa verið „til­raun með opn­um landa­mær­um“ sem nú sé lokið.

Hann varaði við því að Bret­land gæti orðið að „eyju ókunn­ugra“ ef inn­flytj­enda­regl­ur yrðu ekki hert­ar og ef inn­flytj­end­ur myndu ekki aðlag­ast bresku sam­fé­lagi.

Mörg hundruð þúsund inn­flytj­end­ur á ári

Á síðasta ári komu 728 þúsund inn­flytj­end­ur til Bret­lands og árið þar á und­an hátt í millj­ón. Með nýj­um áform­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar er áætlað að kom­um inn­flytj­enda geti fækkað ár­lega um hundrað þúsund til árs­ins 2029.

Íhalds­flokk­ur­inn og Um­bóta­flokk­ur­inn segja þetta aft­ur á móti alls ekki nóg þar sem þetta þýði að áfram verða nokk­ur hundruð þúsund inn­flytj­end­ur sem koma ár­lega til lands­ins.

Yf­ir­ráðgjafi rík­is­stjórn­ar­inn­ar í inn­flytj­enda­mál­um seg­ir að með þess­um aðgerðum megi áætla að eft­ir nokk­ur ár verði um 250 þúsund inn­flytj­end­ur sem muni komi ár­lega til Bret­lands. 

Krafa um enskukunn­áttu

Stefnu­skjal rík­is­stjórn­ar­inn­ar um inn­flytj­enda­mál, svo­kölluð Hvít­bók um inn­flytj­enda­mál, inni­held­ur áform um að fækka komu er­lends starfs­fólks á bresk­um vinnu­markaði og lengja þann tíma sem fólk þarf að búa í Bretlandi áður en það öðlast rétt til rík­is­borg­ara­rétt­ar úr fimm árum í tíu ár.

Regl­ur um enskukunn­áttu verða einnig hert­ar fyr­ir þá sem koma til lands­ins til að vinna þannig að krafa verður um að viðkom­andi geti sýnt fram á grund­vall­ar­skiln­ing.

Star­mer úti­lokaði ekki að herða regl­ur enn frek­ar.

„Ef við þurf­um að taka frek­ari skref, ef við þurf­um að gera meira til að létta á þrýst­ingi á hús­næðismarkaði og op­in­bera þjón­ustu okk­ar, þá getið þið verið viss um að við mun­um gera það,“ sagði Star­mer.

Var mild­ari í út­lend­inga­mál­um fyr­ir nokkr­um árum

Í frétt breska dag­blaðsins Tel­egraph er rakið hvernig afstaða Star­mers hef­ur breyst á und­an­förn­um árum.

Þegar hann bauð sig fram til for­ystu Verka­manna­flokks­ins 2020 krafðist hann til dæm­is frjálsra flutn­inga fólks á milli landa eft­ir út­göngu Breta úr Evr­ópu­sam­band­inu, auk þess að rík­is­borg­ar­ar inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins væru með kosn­inga­rétt í Bretlandi ef þeir væru bú­sett­ir þar.

Útlend­inga­mál eru hita­mál í Bretlandi eins og í mörg­um öðrum Evr­ópu­ríkj­um. Um­bóta­flokk­ur­inn vann til að mynda stór­sig­ur í ný­af­stöðnum sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um í Bretlandi en sá flokk­ur legg­ur höfuðáherslu á að fækka inn­flytj­end­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert