Innsti koppur í búri einnar umfangsmestu svikamyllu sem farið hefur um lýðnetið, Magic Cat, en sá kallar sig Darcula í stafræna veruleikanum, virðist vera horfinn með öllu og ná jafnvel samstarfsmenn í hans innsta hring engu sambandi við hann.
Í hinum veruleikanum, þeim sem ekki byggist á sífellt fullkomnari örgjörvum, er Darcula 24 ára gamall Kínverji að nafni Yucheng C, þetta afhjúpuðu ríkisútvörp Noregs og Þýskalands, NRK og Bayerischer Rundfunk, ásamt franska stórblaðinu Le Monde í maí, en aðferðafræði Magic Cat og höfunda þess byggir á því að dreifa forriti sínu gegnum samskiptamiðilinn Telegram og ginna netverja um gervalla heimsbyggðina til að smella á hlekki sem gera þeim skráveifu eina og miska.
Var það norska ríkisútvarpið NRK sem fletti ofan af Töfrakettinum illræmda sem að meginstefnu til beindi fólki inn á ginningarsíður sem virtust falsleysið eitt en eftir að kortaupplýsingar voru gefnar þar upp var svikahröppunum það leikur einn að ná öllum fjármunum út af viðkomandi korti áður en korthafi fær rönd við reist.
Í kjölfar þess að fréttamenn NRK höfðu samband við Darcula netleiðis birtist tilkynning í lokuðum notendahópi á Telegram um að nú væri ekki lengur unnt að kaupa ný notendaleyfi fyrir svikamylluna Magic Cat. Frá þessu greinir netöryggissérfræðingurinn Harrison Sand, sem starfar fyrir tæknifyrirtækið Mnemonic, í samtali við NRK.
Spáir Sand því að nú sé þess ekki langt að bíða að Magic Cat verði ónothæft með öllu, forrit sem nýst hefur höfundum sínum og leyfishöfum til að svíkja óheyrilegar fjárhæðir út úr netnotendum um árabil, meðal annars í Noregi þar sem NRK hefur haft uppi á nokkrum fórnarlömbum þótt upphæðirnar í þeirra tilfellum séu ekki svimandi miðað við aðra heimshluta og fjölmennari lönd.
„Notendaleyfi fyrir Magic Cat eru vanalega gefin út fyrir viku eða mánuð í senn,“ útskýrir Sand fyrir NRK, „án möguleika á kaupum nýrra leyfa verður notkun forritsins útilokuð,“ en fyrirtæki hans, Mnemonic, átti einna stærstan þátt í því að afhjúpa Magic Cat-svikamylluna.
Forritið leit dagsins ljós árið 2023 og síðan hafa hundruð svindlara nýtt það í sína þágu til að verða sér úti um illa fengið fé. Samkvæmt þeim gögnum sem NRK hefur viðað að sér komust óprúttnir aðilar yfir upplýsingar 884.000 greiðslukorta um gervalla heimsbyggðina á sjö mánaða tímabili og reyndust þar af 19.000 kort vera norsk.
Meðal þess sem fjölmiðlarnir þrír beittu fyrir sig við rannsókn sína var að hafa, undir fölsku flaggi, samband við fjölda Telegram-notenda er tengdust Magic Cat og spyrja þá hvort þjónusta þeirra væri til sölu.
Einn svarenda var x66 sem fréttamenn NRK þekktu reyndar af öðrum vettvangi þar sem þeir höfðu setið hjá honum svindlnámskeið er þeir síðar greindu frá í fréttum sínum. Staðfesti x66, ásamt öðrum aðila sem NRK ræddi við, að Magic Cat hefði lagt þjónustu sína niður.
„Stjórinn er horfinn og engin leið að ná sambandi við hann,“ sagði x66 við NRK og átti þar við kínverska höfuðpaurinn Darcula, öðru nafni Yucheng C., sem óvíst er að nokkru sinni verði dreginn til ábyrgðar fyrir afbrot sín enda sem leit að nálinni í heystakknum að finna nær nafnlausan og að mestu stafrænan kínverskan tölvuþrjót úti á götu innan um sauðsvartan pupulinn.