Afrísk-sænsku landssamtökin í Svíþjóð, Afrosvenskarnas Riksorganisation eins og þau kallast upp á sænsku, hafa kært sex skemmtistaði í höfuðborginni Stokkhólmi til lögreglu fyrir að mismuna gestum sínum á grundvelli kynþáttar í kjölfar úttektar sænska dagblaðsins Aftonbladet á mismunun af því taginu.
Leiddi rannsókn blaðsins, sem að hluta fór fram með fulltingi falinna myndavéla blaðamanna á vettvangi, í ljós fjölda atvika sem Kitimbwa Sabuni formaður landssamtakanna segir í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT að feli í sér öll þau sönnunargögn sem geti orðið grundvöllur dómsmáls á hendur eigendum staðanna.
Ein af upptökum rannsakenda Aftonbladet sýnir til dæmis svo ekki verður um villst hvernig tveir hópar, í öðrum þeirra þrjú hvít ungmenni en þrjú þeldökk í hinum, njóta ólíks beinleika gestgjafa næturlífs Stokkhólms. Sýna upptökur blaðsins svart á hvítu, bókstaflega, hvernig hvítu þremenningunum er hleypt inn á sjö af átta stöðum á meðan þeim svörtu er vísað frá í sama hlutfalli og ekki hleypt inn á sjö af átta stöðum.
Í umfjöllun sinni taka ritarar dagblaðsins það fram að hér sé ekkert nývirki á ferð, þvert á móti hafi 88 kvörtunum verið beint til umboðsmanns jafnréttismála í Svíþjóð síðastliðin fimm ár yfir mismunun skemmtistaða gagnvart borgurunum. Engin þeirra hefur að sögn blaðsins leitt til nokkurra aðgerða opinberra aðila á þessum vettvangi, en nú telja Afrísk-sænsku landssamtökin sig eygja von um breytta tíma í krafti myndskeiða Aftonbladet.
Beinast kærur samtakanna að stöðunum Berns, Södra Teatern, Hyde, Golden Hits, Noxx og Kristal í höfuðborginni.
Sabuni formaður er þeirrar skoðunar að rannsókn Aftonbladet sýni glöggt þá kerfisbundnu kynþáttamismunun sem viðgangist í sænsku samfélagi og kveður samtökin með lögreglukærunni vonast til þess að breytingar megi verða í þá átt að kynþáttahatur í sænsku næturlífi verði í framtíðinni knúið til kyrrðar.
„Sú breyting næst ekki eingöngu fyrir tilstuðlan dómsmáls. Hér þarf að setja það fordæmi að samfélagið krefjist þess að ætli einhver sér að hafa rekstrarleyfi og vínveitingaleyfi dugi honum ekki að mismuna fólki,“ segir Sabuni að lokum.
Í svari við skriflegri fyrirspurn SVT segir talsmaður Södra Teatern að hvers kyns kynþáttastefna sé litin alvarlegum augum þar á staðnum sem sett hafi sér þá stefnu að engum skuli synja um aðgang að staðnum á grundvelli kynferðis, bakgrunns, kynþáttar, kynhneigðar eða trúar.
„Í ljósi umfjöllunar Aftonbladet höfum við farið gaumgæfilega yfir verkferla okkar til þess að fullvissa okkur um að stefnu staðarins sé fylgt í hvívetna,“ segir að lokum í svari Södra Teatern.
Hvað sem því líður fer lögreglukæra Afrísk-sænsku landssamtakanna nú sína leið í kerfinu í kjölfar umfjöllunar Aftonbladet og ræðst á efsta degi hvort staðirnir sex í sænsku höfuðborginni hafi gerst sekir um refsiverða kynþáttastefnu í rekstri sínum.