„Kóngurinn“ handtekinn og samtökin bönnuð

Peter Fitzek, sjálfskipaður konungur, er einn af þeim fjórum sem …
Peter Fitzek, sjálfskipaður konungur, er einn af þeim fjórum sem handteknir voru fyrr í morgun. AFP

Þýska lög­regl­an réðst í morg­un í um­fangs­mikl­ar aðgerðir þar sem fjór­ir leiðtog­ar sam­tak­anna Þýska kon­ungs­veldið (Könichreich Deutsch­land) voru hand­tekn­ir.

Sam­tök­in hafa í gegn­um tíðina neitað að samþykkja stjórn­skip­an Þýska­lands og telja meðlim­ir sam­tak­anna Þýska­land vera kon­ungs­ríki.

Meðal þeirra sem var hand­tek­inn í lög­regluaðgerðum dags­ins var Peter Fitzek, 59 ára gam­all fyrr­ver­andi kara­teþjálf­ari, en Fitzek krýndi sjálf­an sig sem kon­ung „Þýska kon­ungs­veld­is­ins“ árið 2012.

Ógn við þjóðarör­yggi

Meðlim­ir sam­tak­anna eru um sex þúsund tals­ins en inn­an­rík­is­ráðuneyti Þýska­lands hef­ur frá og með deg­in­um í dag sett blátt bann við starf­semi sam­tak­anna.

Að sögn ráðuneyt­is­ins hafa meðlim­ir sam­tak­anna síðastliðin ár orðið rót­tæk­ari í skoðunum sín­um og eru sam­tök­in nú tal­in ógn við þjóðarör­yggi enda hafi sam­tök­in grafið und­an þeim lýðræðis­legu og frjáls­lyndu gild­um sem ein­kenna Þýska­land. 

Sam­tök­in eru því frá og með deg­in­um í dag flokkuð sem glæpa­sam­tök.

Hluti af stærri hreyf­ingu

Prinsinn Heinrich XIII Reuss er á meðal þeirra sem voru …
Prins­inn Heinrich XIII Reuss er á meðal þeirra sem voru hand­tekn­ir og grunaðir um að ætla að fremja vald­arán árið 2022. AFP

Sam­tök­in eru hluti af stærri hreyf­ingu sem hef­ur áður valdið usla í Þýskalandi. Sú hreyf­ing, Reichs­burger-hreyf­ing­in, hef­ur lengi vel neitað fyr­ir lög­mæti rík­is­stjórn­ar Þýska­lands og þýska sam­bands­lýðveld­is­ins í heild sinni. 

Hreyf­ing­in sam­an­stend­ur af fjölda sam­taka og ein­stak­ling­um sem öll aðhyll­ast sam­bæri­lega hug­mynda­fræði, talið er að hreyf­ing­in telji um 23 þúsund manns og er hluti þeirra tal­inn hættu­leg­ur. 

Árið 2022 réðust þýsk lög­reglu­yf­ir­völd í afar um­fangs­mikl­ar aðgerðir þar sem 25 manns sem til­heyrðu hreyf­ing­unni voru hand­tekn­ir grunaðir um að hafa ætlað að fremja vald­arán og ráðast á þýska þingið.

Meðal þeirra sem hand­tek­inn var árið 2022 grunaður um að ætla að fremja vald­arán var aristó­krat­inn, viðskiptamaður og prins­inn Heinrich XIII Reuss en áformað var að hann tæki við stjórn lands­ins að vald­arán­inu loknu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert