Þýska lögreglan réðst í morgun í umfangsmiklar aðgerðir þar sem fjórir leiðtogar samtakanna Þýska konungsveldið (Könichreich Deutschland) voru handteknir.
Samtökin hafa í gegnum tíðina neitað að samþykkja stjórnskipan Þýskalands og telja meðlimir samtakanna Þýskaland vera konungsríki.
Meðal þeirra sem var handtekinn í lögregluaðgerðum dagsins var Peter Fitzek, 59 ára gamall fyrrverandi karateþjálfari, en Fitzek krýndi sjálfan sig sem konung „Þýska konungsveldisins“ árið 2012.
Meðlimir samtakanna eru um sex þúsund talsins en innanríkisráðuneyti Þýskalands hefur frá og með deginum í dag sett blátt bann við starfsemi samtakanna.
Að sögn ráðuneytisins hafa meðlimir samtakanna síðastliðin ár orðið róttækari í skoðunum sínum og eru samtökin nú talin ógn við þjóðaröryggi enda hafi samtökin grafið undan þeim lýðræðislegu og frjálslyndu gildum sem einkenna Þýskaland.
Samtökin eru því frá og með deginum í dag flokkuð sem glæpasamtök.
Samtökin eru hluti af stærri hreyfingu sem hefur áður valdið usla í Þýskalandi. Sú hreyfing, Reichsburger-hreyfingin, hefur lengi vel neitað fyrir lögmæti ríkisstjórnar Þýskalands og þýska sambandslýðveldisins í heild sinni.
Hreyfingin samanstendur af fjölda samtaka og einstaklingum sem öll aðhyllast sambærilega hugmyndafræði, talið er að hreyfingin telji um 23 þúsund manns og er hluti þeirra talinn hættulegur.
Árið 2022 réðust þýsk lögregluyfirvöld í afar umfangsmiklar aðgerðir þar sem 25 manns sem tilheyrðu hreyfingunni voru handteknir grunaðir um að hafa ætlað að fremja valdarán og ráðast á þýska þingið.
Meðal þeirra sem handtekinn var árið 2022 grunaður um að ætla að fremja valdarán var aristókratinn, viðskiptamaður og prinsinn Heinrich XIII Reuss en áformað var að hann tæki við stjórn landsins að valdaráninu loknu.