Hópur vísindamanna setti í gær upp minnismerki við Yala-jökul í Himalajafjöllum, 5.000 metra yfir sjávarmáli, með áletruðum texta eftir íslenska rithöfundinn Andra Snæ Magnason.
Fleiri en fimmtíu manns, þar með taldir búddamunkar og jöklasérfræðingar frá Bútan, Kína, Indlandi og Nepal, komu saman við fallega athöfn á vegum alþjóðlegu stofnunarinnar ICIMOD (The International Centre for Integrated Mountain Development) í gær þar sem fram fór búddísk athöfn, vísindamenn fóru með ræður og afhjúpuð voru tvö minnismerki úr granít sem lögð voru við rætur jökulsins þar sem hann stendur í dag.
Auk þess að vera til minningar um jökulinn eru minnismerkin áminning um 54.000 aðra jökla í Himalajafjöllunum sem eru óðum að hverfa, en þeir eru vatnsforðabúr fyrir um milljarð jarðarbúa.
Skilaboð frá tveimur heimsþekktum rithöfundum eru áletruð á sitthvort minnismerkið, annars vegar frá Andra Snæ Magnasyni og hins vegar nepalsk-kanadíska höfundinum Manjushree Thapa, og gáfu þau bæði vinnu sína til styrktar loftslagsaðgerðum.
„Skilaboð til framtíðarinnar: Yala-jökullinn er einn af 54.000 jöklum Hindu Kush Himalaja-fjöllunum, en gert er ráð fyrir að flestir þeirra hverfi á þessari öld sökum loftslagsbreytinga. Þetta minnismerki er til að viðurkenna að við vitum hvað er að eiga sér stað og hvað þarf að gera. Aðeins þið vitið hvort við höfum gert það. Maí 2025 456ppm CO2,“ segir í áletrun Andra.
„Yala, þar sem guðina dreymir í fjallahæðum, þar sem kuldinn er yndislegur. Þá dreymir um líf í steini, botnfalli og snjó, í eyðileggingu íss og jarðar, í laugum af bráðnuðum ís á litinn eins og himinninn. Dreymir. Þá dreymir um jökul og siðmenningu fyrir neðan. Heil lífríki: okkar eigið viðurværi. Umhverfið. Og allt sem við þekkjum og allt sem við elskum,“ segir í áletrun Thapa.
Yala-jökullinn hefur minnkað um 66% og hopað um 784 metra síðan hann var fyrst mældur um 1970. Áætlað er að Yala verði með fyrstu jöklum Nepal til að hverfa að fullu.
Jökullinn er sá fyrsti í Asíu og sá þriðji á heimsvísu til að bera eigin útgáfu af þessum skilaboðum frá Andra. Skilaboð frá honum er einnig að finna þar sem jökullinn Ok var, hér á Íslandi, og þar sem Ayoloco-jökullinn var í Mexíkó, en athafnir fóru þar fram á árunum 2019 og 2021.
Álíka athafnir hafa farið fram fyrir Pizol-jökulinn í Sviss árið 2019, Clark-jökulinn í Oregon í Bandaríkjunum árið 2020 og Basodino-jökulinn í Sviss árið 2021.
Um 100 jöklafræðingar hafa fengið þjálfun á Yala-jöklinum síðan ICIMOD hóf þjálfunarferðir á jökulinn um 2011 en hann hefur verið nýttur sem rannsóknarsvæði í um 50 ár.
Rúmlega níu billjón tonn af ís hafa bráðnað frá því um 1975, en það jafnast á við 2,72 metra þykka íshellu á stærð við Indland.
„Ég er að vonast til þess að við getum gert fleira fólki viðvart, og deilt því sem við höfum lært og upplifað á því að fylgjast með jöklinum, sérstaklega með þeim sem ekki geta komið hingað og séð þetta sjálfir, og sýnt þeim að þessi og aðrir jöklar heimsins eru líflínur okkar,“ segir Sharad Prasad Joshi, sérfræðingur hjá ICIMOD.