Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefði átt að afhenda blaðamönnum New York Times smáskilaboð sem fóru á milli Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og Albert Bourla, forstjóra lyfjarisans Pfizer.
Evrópudómstóllinn í Lúxemborg, dómstóll ESB, komst að þessari niðurstöðu nú í morgun.
Samskipti von der Leyen og Bourla fóru fram í lok árs 2020 og vörðuðu kaup ESB á COVID-19 bóluefni Pfizer. Framkvæmdastjórnin taldi skilaboðin ekki innihalda mikilvæg málefni og hélt því jafnframt fram að skilaboðunum hefði þegar verið eytt.
Evrópudómstóllinn taldi hins vegar að röksemdir framkvæmdastjórnarinnar væru ekki nægilega sannfærandi og því hefðu blaðamenn New York Times átt rétt á því að fá skilaboðin afhent.
Ekki er ljóst hvort framkvæmdastjórnin muni afhenda skilaboðin í ljósi þess að ekki er víst hvort að þeim hafi verið eytt eður ei.
Framkvæmdastjórnin hefur þó gefið frá sér yfirlýsingu þar sem segir að ný ákvörðun verði brátt tekin þar sem rökstuðningur mun vera ítarlegri.
New York Times hefur einnig gefið frá sér yfirlýsingu en þar segir að gagnsæið hafi sigrað og að framkvæmdastjórnin þurfi nú að axla ábyrgð.