Mikael „Grikkinn“ Tenezos, sem stýrir sænska Dalen-glæpagenginu með harðri hendi, er talinn hafa komið að ráðningu sextán ára gamals pilts sem fenginn var til þess að ráða mann af dögum í Noregi í fyrrasumar.
Það dráp fór raunar út um þúfur, en Tenezos, sem sænsk lögregluyfirvöld lýsa nú eftir alþjóðlega, er grunaður um að hafa staðið að fleiri slíkum ráðningum sænskra ungmenna til að fremja ódáðir, einkum innan landamæra Svíþjóðar og Noregs.
Tenezos er aðeins 27 ára gamall, en telst þó harðsvíraður afbrotamaður og stjórnandi alræmdrar klíku sem etur kappi við aðrar stórar og öflugar sænskar glæpaklíkur, svo sem Shottaz og Foxtrot, sem nánast eru eins og litlir herir í vopnavæðingu sinni og mannafla. Samtök afbrotamanna sem gæta sinna hagsmuna á sínum svæðum og meta mannslíf lítils þegar sýna þarf andstæðingum í tvo heimana eða ganga til hefndarvíga.
Meðal þess sem sænska lögreglan hefur fyrir satt er að „Grikkinn“ hafi í fyrra, i samstarfi við tvítugan Svía, haft töglin og hagldirnar í þessum skuggalegu ráðningarmálum sem þeir félagar hafi stýrt úr öruggu skjóli sínu einhvers staðar í hinu víðfeðma Mexíkó, langt utan seilingar hins norræna arms laganna.
Meðal atvika í fyrrasumar var það er tveir unglingar voru gerðir út frá Svíþjóð í því augnamiði að skjóta og drepa mann í Sandefjord á suðausturströnd Noregs í júní. Staðfestir Fredrik Borg Johannesen ákæruvaldsfulltrúi í austurumdæmi norsku lögreglunnar þetta við þarlenda ríkisútvarpið NRK og enn fremur för að minnsta kosti eins Svía á unglingsaldri til Horten, ekki langt frá Sandefjord, í júlí til að koma þar manni á fertugsaldri fyrir kattarnef.
Þá hefur norska lögreglan öruggar heimildir fyrir því, auk heimilda sem NRK hefur aflað sér, að maðurinn sem til stóð að senda á vit feðra sinna í Horten, en ekki varð af, var góður vinur NOKAS-ræningjans Metkels Betews sem myrtur var með skotvopni og eggvopni í Ósló á skírdag og síbrotamaðurinn Stig Millehaugen er grunaður um þótt þær grunsemdir Óslóarlögreglunnar hafi veikst í kjölfar fjölda vitnisburða um vinnslu Millehaugen að bókinni „Forvaring fra innsiden“, eða „Varðveisla innan frá“ sem fjallar um líf þungdæmdustu afbrotamanna Noregs innan múranna.
Á bak við pöntunina á drápinu í Horten, sem „Grikkinn“ er talinn hafa annast, er pöntun norskra undirheimabaróna sem töldu sig þurfa að koma Horten-manninum úr umferð.
Hefur NRK rætt við lögmann mannsins sem kvaðst ekki vilja tjá sig um málið.
NRK-II (Dalen-klíkan berst á banaspjót)