„Grikkinn“ réð unglinga til víga

Mikael „Grikkinn“ Tenezos, stjórnandi Dalen-glæpagengisins sænska, (t.v.) liggur undir grun …
Mikael „Grikkinn“ Tenezos, stjórnandi Dalen-glæpagengisins sænska, (t.v.) liggur undir grun um að hafa ráðið sextán ára unglinginn hægra megin á myndinni til að halda til Noregs með dráp á dagskrá í fyrrasumar. Ljósmynd/Sænska lögreglan

Mika­el „Grikk­inn“ Tenezos, sem stýr­ir sænska Dalen-glæpa­geng­inu með harðri hendi, er tal­inn hafa komið að ráðningu sex­tán ára gam­als pilts sem feng­inn var til þess að ráða mann af dög­um í Nor­egi í fyrra­sum­ar.

Það dráp fór raun­ar út um þúfur, en Tenezos, sem sænsk lög­reglu­yf­ir­völd lýsa nú eft­ir alþjóðlega, er grunaður um að hafa staðið að fleiri slík­um ráðning­um sænskra ung­menna til að fremja ódáðir, einkum inn­an landa­mæra Svíþjóðar og Nor­egs.

Tenezos er aðeins 27 ára gam­all, en telst þó harðsvíraður af­brotamaður og stjórn­andi al­ræmdr­ar klíku sem etur kappi við aðrar stór­ar og öfl­ug­ar sænsk­ar glæpaklík­ur, svo sem Shottaz og Foxtrot, sem nán­ast eru eins og litl­ir her­ir í vopna­væðingu sinni og mannafla. Sam­tök af­brota­manna sem gæta sinna hags­muna á sín­um svæðum og meta manns­líf lít­ils þegar sýna þarf and­stæðing­um í tvo heim­ana eða ganga til hefnd­ar­víga.

Til Sand­efjord með mis­gott til ætl­un­ar

Meðal þess sem sænska lög­regl­an hef­ur fyr­ir satt er að „Grikk­inn“ hafi í fyrra, i sam­starfi við tví­tug­an Svía, haft tögl­in og hagld­irn­ar í þess­um skugga­legu ráðning­ar­mál­um sem þeir fé­lag­ar hafi stýrt úr ör­uggu skjóli sínu ein­hvers staðar í hinu víðfeðma Mexí­kó, langt utan seil­ing­ar hins nor­ræna arms lag­anna.

Meðal at­vika í fyrra­sum­ar var það er tveir ung­ling­ar voru gerðir út frá Svíþjóð í því augnamiði að skjóta og drepa mann í Sand­efjord á suðaust­ur­strönd Nor­egs í júní. Staðfest­ir Fredrik Borg Johann­esen ákæru­valds­full­trúi í aust­urum­dæmi norsku lög­regl­unn­ar þetta við þarlenda rík­is­út­varpið NRK og enn frem­ur för að minnsta kosti eins Svía á ung­lings­aldri til Horten, ekki langt frá Sand­efjord, í júlí til að koma þar manni á fer­tugs­aldri fyr­ir katt­ar­nef.

Góðvin­ur Betews

Þá hef­ur norska lög­regl­an ör­ugg­ar heim­ild­ir fyr­ir því, auk heim­ilda sem NRK hef­ur aflað sér, að maður­inn sem til stóð að senda á vit feðra sinna í Horten, en ekki varð af, var góður vin­ur NOKAS-ræn­ingj­ans Met­kels Betews sem myrt­ur var með skot­vopni og eggvopni í Ósló á skír­dag og sí­brotamaður­inn Stig Millehaugen er grunaður um þótt þær grun­semd­ir Ósló­ar­lög­regl­unn­ar hafi veikst í kjöl­far fjölda vitn­is­b­urða um vinnslu Millehaugen að bók­inni „For­var­ing fra innsi­den“, eða „Varðveisla inn­an frá“ sem fjall­ar um líf þung­dæmd­ustu af­brota­manna Nor­egs inn­an múr­anna.

Á bak við pönt­un­ina á dráp­inu í Horten, sem „Grikk­inn“ er tal­inn hafa ann­ast, er pönt­un norskra und­ir­heima­baróna sem töldu sig þurfa að koma Horten-mann­in­um úr um­ferð.

Hef­ur NRK rætt við lög­mann manns­ins sem kvaðst ekki vilja tjá sig um málið.

NRK

NRK-II (Dalen-klík­an berst á bana­spjót)

NRK-III (Sand­efjord-áætl­un­in)

NRK-IV (Horten-áætl­un­in)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert