Fyrrverandi liðsmaður bandaríska þjóðvarðarliðsins hefur verið handtekinn fyrir að hafa skipulagt skotárás á herstöð í Michigan í nafni Íslamska ríkisins. Þetta tilkynnti dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna í dag.
Ammar Abdulmajid-Mohamed Said, sem er 19 ára og frá Michigan-ríki, hefur verið ákærður fyrir að reyna að láta hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu í té gögn um sprengibúnað.
Sue Bai, yfirmaður þjóðaröryggisdeildar dómsmálaráðuneytisins, segir í yfirlýsingu að Said sé „ákærður fyrir að skipuleggja mannskæða árás á bandaríska herstöð fyrir Íslamska ríkið.“
Said er sagður hafa ráðið tvo samverkamenn til að fremja skotárás á Tank-Automotive and Armaments Command-aðstöðu (TACOM) bandaríska hersins í Warren í Michigan. Mennirnir hafi reynst vera leynilögreglumenn í verkefni.
Said á að hafa útvegað skotfæri og flogið dróna yfir svæðið til að undirbúa árásina.
Hann var handtekinn á þriðjudag, á áætluðum degi árásarinnar að sögn dómsmálaráðuneytisins.
Said á yfir höfði sér langan fangelsisdóm, en hámarksrefsing fyrir hvert brot sem hann er ákærður fyrir er 20 ár.