Nafn Vladimírs Pútíns forseta Rússlands er ekki á lista yfir nöfn rússnesku sendinefndarinnar sem kemur til viðræðna í Istanbúl í Tyrklandi á morgun.
Volodimír Selenskí forseti Úkraínu mætir til viðræðnanna og sagðist vera tilbúinn til að hitta Pútín og ræða um stríðslok í Úkraínu.
Í sendinefnd Rússa eru lágtsettir diplómatar. Þetta eru fyrstu friðarviðræðurnar í meira en þrjú ár þar sem bæði Rússar og Úkraínumenn koma beint að borðinu.
Stjórnvöld í Rússlandi hafa síðustu daga neitað að gefa upp hvort forsetinn myndi mæta til viðræðnanna, en sérfræðingar hafa talið ólíklegt að hann myndi mæta.
Af nafnalistanum að dæma verður því að teljast ólíklegt að Pútín mæti til viðræðnanna.
Fyrir sendinefndinni fer nafni Pútíns og ráðgjafi, Vladimír Medinskí. Hann hefur áður gegnt embætti menningarmálaráðherra Rússlands og tók þátt í friðarumleitunum árið 2022.
Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, verður ekki í Istanbúl á morgun, og ekki heldur Júrí Úsjakov, ráðgjafi Pútíns í utanríkismálum.
Selenskí hefur sagt að mæti Pútín ekki til viðræðna í Istanbúl sé það skýrt merki um að hann hafi ekki raunverulegan áhuga á friði. „Ég er að bíða eftir því að sjá hverjir koma frá Rússlandi. Þá mun ég ákveða hver næstu skref Úkraínu verða,“ sagði Selenskí í dag.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur ekki látið viðræðurnar fram hjá sér fara og sagði fyrr í dag að hann gæti vel hugsað sér að mæta til Istanbúl ef Pútín legði leið sína þangað.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Marco Rubio, er svo væntanlegur til borgarinnar á föstudag. Er búist við því að hann taki þátt í hluta viðræðnanna.