Ítalskur prestur hefur verið handtekinn á grun um að hafa í vörslum sínum myndefni sem sýnir börn á klámfenginn hátt. Hann er nú í stofufangelsi.
Presturinn starfaði sem sóknarprestur í bænum Castelcovati, vestur af Brescia á norður Ítalíu. Biskupsdæmið hefur nú gefið út tilkynningu þess efnis að hann hafi verið látinn fara og að um sé ekki að ræða börn innan sóknarinnar.
Þetta er annað hneykslismálið sem upp kemur í biskupsdæminu á stuttum tíma en fyrir mánuði síðan var presturinn Ciro Panigara handtekinn á grun um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Var hann ákærður fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn börnum á aldrinum 10 til 12 ára í tveimur sóknarfélögum á milli Mílan og Verona.
„Glæpurinn sem hann mun þurfa að svara fyrir hefur að gera með vörslu á barnaklámi, glæpur sem sóttur er af dómstólum og einnig af kirkjunni,“ sagði Adriano Bianchi, talsmaður biskupsdæmisins, í yfirlýsingu.
„Um er ekki að ræða börn innan sóknarinnar og hann hefur ekki hagað sér á óviðeigandi hátt gagnvart fólki sem honum var falið að annast í starfi sínu.“
Segir einnig í yfirlýsingunni að glæpi gegn börnum megi ekki vanmeta, líta hjá eða verða án refsingar, „sérstaklega ef prestur á í hlut“.
Formleg rannsókn innan kirkjunnar mun fara fram en sem stendur hefur áhersla biskupsdæmisins verið lögð á að styðja við rannsókn lögreglu, sem hefur fundið um 1.500 klámfengnar myndir og myndbönd af börnum í síma prestsins.