Spenna á milli Rússlands og Úkraínu virðist vera að aukast rétt fyrir mögulegar friðarviðræður milli landanna í Tyrklandi. Hörð ummæli hafa fallið í morgun.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti lenti í borginni Ankara í Tyrklandi fyrr í morgun þar sem hann mun funda með Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta og ákveða næstu skref varðandi friðarviðræðurnar í Istanbúl.
Ljóst er að Vladimír Pútín Rússlandsforseti mun ekki mæta til viðræðna en sendinefnd Rússa er sögð standa af lægra settum erindrekum.
Í samtali við blaðamenn í Ankara fyrr í morgun gagnrýndi Selenskí sendinefndina og sagðist honum finnast sem Rússland hafi sent nefnd sem mögulega væri ekki með umboð til þess að taka nokkrar ákvarðanir sjálf í viðræðunum.
Jafnframt sagði hann úkraínsku sendinefndina vera á „hæsta stigi“ og að hún myndi nú ákveða næstu skref eftir fund með Erdogan.
Rússar voru fljótir að svara ummælum Selenskís.
Talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, María Zakharova, sagði ummæli Úkraínuforsetans gefa til kynna að hann væri „trúður“ og „lúser“ sem hefði „enga menntun.“
Þá kallaði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, Selenskí „aumkunarverðan einstakling“ fyrir að hafa krafist þess að Pútín kæmi persónulega til viðræðnanna fyrr í vikunni.
Þá ber þess að geta að varnarmálaráðuneyti Rússlands tilkynnti í morgun að Rússland hefði hertekið tvö þorp í austurhluta Úkraínu.
Um er að ræða þorpin Torskoye og Novooleksandrivka í Donetsk-héraði.